fbpx
Miðvikudagur 02.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Eyjan
Laugardaginn 29. mars 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ánægjulegt hefur verið sjá dómsmálaráðherra þjóðarinnar, oftast úr röðum sjálfstæðismanna, taka sig vel út við fundarborð ráðherraráðs ESB um málefni Schengen á síðasta aldarfjórðungi eða svo. Þar hafa þeir einmitt setið sem algerir jafningjar annarra æðstu ráðamanna sambandsins sem hafa yfirumsjón með landamæravörslu álfunnar. Og það er auðvitað annar og betri bragur á því en að hanga frammi á gangi eins og hver önnur hornkerling, en slíkt er hlutskipti íslenskra erindreka í Brussel þegar kemur að öllum öðrum málaflokkum sem leiða til regluverksins innan ESB, sem svo er áframsent til Íslands.

Það munar nefnilega um það að sitja við borðið. Það skilur eftir fingraför Íslendinga á því lagaumhverfi sem þeir eiga að lifa eftir. Það er við borðið sem þeir setja sínar eigin reglur, herða þær eða rýmka, í stað þess að fá þær fluttar yfir hafið, útbúnar af allt öðrum ráðherrum og þingmönnum en þeim sem sitja á Alþingi, sjálfri löggjafarsamkomu íslensku þjóðarinnar.

En uppi á Íslandi óttast margir þetta borð. Og þótt þeim fari fækkandi, er það þeim sammerkt, sem vilja ekki taka þátt í að búa til sínar eigin reglur, að þeir telja fullveldinu best borgið frammi á gangi. Og það er eindregin pólitík þeirra. Þeir beninlínis berjast fyrir því að hafa ekki áhrif.

„Danir, Finnar, Íslendingar, Norðmenn og Svíar kröfðust þess með öðrum orðum að sitja við sama borð og Evrópusambandsþjóðirnar, ef þeir ættu á annað borð að taka þátt í afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum álfunnar …“

Ástæða þess að íslenskir stjórnmálamenn fá að sitja við umrætt ráðherraborð um málefni Schengen, og aðeins það eina borð, er einfaldlega sú að Norðurlandaþjóðirnar, sem undirrituðu samning um þátttöku í Schengen-samstarfinu í desember 1996, sögðu upphátt að annað væri ekki boðlegt fyrir sjálfstæðisvitund þjóðanna. Danir, Finnar, Íslendingar, Norðmenn og Svíar kröfðust þess með öðrum orðum að sitja við sama borð og Evrópusambandsþjóðirnar, ef þeir ættu á annað borð að taka þátt í afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum álfunnar og stóraukinni samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengensvæðinu.

Á þessum árum, þegar nokkur reynsla var að komast á EES-samninginn, áttuðu Íslendingar og Norðmenn sig á því, að frekara og nánara samstarf þeirra við aðrar Evrópusambandsþjóðir yrði ekki rækt með öðrum hætti en að eiga fulla aðild að ákvörðunartökunni í þessum mikilvæga málaflokki.

Þetta merkir; ekkert um okkur, án okkar.

Og á það ekki ávallt við?

Hvenær myndum við Íslendingar sætta okkur við það að hafa ekki atkvæðisrétt í Norðurlandaráði? Hvenær myndu sömu landsmenn gera sig ánægða með að vera aðeins áheyrnarfulltrúar hjá Nató?

Svarið er líklega einfalt. Aldrei.

Og er líklegt að Sunnlendingar létu bjóða sér það að fá vegaáætlun senda í pósti, af því að þeir hefðu ekki seturétt á Alþingi?

Aldrei.

Íslenskir ráðherrar og þingmenn, sem rölta um götur Brussel, hafa aðgang að sérfræðifundum Framkvæmdastjórnar ESB. Þeir mega aftur á móti ekki stíga fæti sínum inn fyrir dyragátt ráðherraráðsins í borginni, og hvað þá þröskuld þingsins. Þess vegna reyna þeir að kalla til sín velunnara á þessum póstum og bjóða þeim upp á kruðerí á kaffihúsum til að hafa, þó ekki væri nema lítlvæg áhrif á framvindu regluverksins, sem berst svo síðar meir yfir hafið.

Þetta er fullveldið sem andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi þrá og vilja verja. Þá langar að vera áfram beiningamenn í Brussel, nokkurskonar húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Í fangi friðsællar Evrópu

Steinunn Ólína skrifar: Í fangi friðsællar Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður
EyjanFastir pennar
27.02.2025

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið
EyjanFastir pennar
27.02.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Rofið traust

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Rofið traust