Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur staðfest þá niðurstöðu Háskólans á Bifröst að neita að afhenda manni upplýsingar um nöfn nemenda sem unnu tiltekið verkefni í tilteknu námskeiði í námi sínu við skólann. Höfðu manninum borist upplýsingar um að nafn hans kæmi fyrir í verkefninu og í hvaða samhengi það var. Vildi hann meina að í verkefninu væri að finna meingjörð gagnvart sér og krafðist þess að fá að vita hvaða nemendur unnu verkefnið með því að fá eintak af verkefninu í heild sinni þar sem nöfn þeirra væru sýnileg. Umræddar upplýsingar bárust manninum frá stjórnarmanni í SÁÁ án leyfis nemendanna.
Það kemur ekki fram í úrskurði nefndarinnar hvað verkefnið hét, hvað námskeiðið hét og í hvaða námi viðkomandi nemendur voru.
Málið á sér nokkuð langa sögu og féll úrskurður nefndarinnar í lok síðasta mánaðar en var ekki birtur fyrr en í gær en maðurinn lagði fram kæru sína í september 2023.
Hann óskaði upphaflega eftir því í apríl 2022, að Háskólinn á Bifröst upplýsti um nöfn höfunda og ábyrgðarfólks verkefnisins. Sagðist maðurinn hafa fengið verkefnið sent frá stjórnarmanni Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, en í því eintaki sem hann fékk afhent væru ekki nöfn höfunda. Að mati mannsins var í verkefninu að finna mikla meingjörð gagnvart honum. Þar sem Háskólinn á Bifröst hafði ekki afgreitt beiðni hans vísaði hann málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í kæru til nefndarinnar í maí 2022, kvaðst maðurinn vilja fá aðgang að verkefninu þannig að nöfn höfunda væru sýnileg. Í kjölfar áskorunar nefndarinnar til skólans var beiðni hans afgreidd, í júní 2022, með vísan til þess að skólanum væri óheimilt að afhenda honum verkefnið. Þar sem afgreiðsla skólans byggðist ekki á ákvæðum upplýsingalaga vísaði nefndin beiðni mannsins aftur til skólans til nýrrar meðferðar og afgreiðslu með úrskurði í maí 2023.
Í september 2023 hafnaði Háskólinn á Bifröst beiðni mannins enn á ný um aðgang að verkefninu og nöfnum nemendanna. Byggði skólinn meðal annars á því að það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef úrlausnir nema í einstökum námskeiðum í háskólanámi væru aðgengilegar öllum. Það gæti haft hamlandi áhrif á kennslu í háskólum landsins og haft þau áhrif að nemendur veigruðu sér við að skila verkefnum, halda fram skoðunum sem væru í andstöðu við ríkjandi viðhorf eða hefja háskólanám yfir höfuð.
Minnti skólinn á að aðeins væri veittur almennur aðgangur að lokaritgerðum nemenda í námi og engin hefð væri fyrir því að veita aðgang að einstökum verkefnum sem væru hluti af námsmati í einstökum námskeiðum.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að við meðferð málsins vegna fyrri kæru mannsins til nefndarinnar hafi hún aflað upplýsinga um afstöðu þeirra fjögurra nemenda sem unnu verkefnið til afhendingar þess til mannsins. Nefndinni hafi borist sameiginlegt svar frá þremur nemendanna. Í svarinu komi fram að þeir legðust gegn afhendingunni. Verkefninu hefði verið miðlað til formanns SÁÁ og honum gefið leyfi til að miðla verkefninu til annarra stjórnarmanna samtakanna. Nemendurnir hefðu ekki samþykkt dreifingu verkefnisins til annarra. Samkvæmt þessu sé ljóst að ekki liggi fyrir samþykki þeirra nemenda sem unnu verkefnið fyrir því að almenningi sé veittur aðgangur að því og þar af leiðandi sé ekki grundvöllur fyrir því, samkvæmt upplýsingalögum, að afhenda manninum það.
Nefndin segir ekki hægt að leggja það til grundvallar að almenningi hefði verið veittur aðgangur að verkefninu þótt því hafi m.a. verið dreift innan SÁÁ og til mannsins. Fullyrðing hans um að verkefnið hafi verið sent stórum hópi fólks, m.a. þingmönnum, fólki í opinberri stjórnsýslu, fjölmiðlafólki og lögreglu, hafi heldur ekki áhrif á þá niðurstöðu.
Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál er efni þessa verkefnis lýst nánar en fram kemur að um lokaverkefni í námskeiðinu hafi verið að ræða. Í formála þess komi fram að framkvæmdastjórn SÁÁ hafi óskað eftir aðstoð til að taka á áskorunum sem samtökin stæðu frammi fyrir. Í verkefninu sé meðal annars lagt mat á vanda samtakanna, hagaðilar greindir og drög lögð að upplýsingastefnu fyrir samtökin.
Segir nefndin ljóst að þótt ekki komi fram neinar persónulegar upplýsingar um nemendurna í verkefninu, aðrar en nöfn þeirra, að þarna sé á ferðinni persónulegt framlag í námi. Ekki hafi verið um að ræða formlega afurð rannsóknarvinnu sem eftir atvikum sé háð ytri rýni og ætluð til birtingar, líkt og kunni að eiga við um lokaverkefni eða -ritgerðir sem sé undanfari prófgráðu, heldur liður í námsmati í einstöku námskeiði til að prófa þekkingu nemenda á námsefni þess. Þar af leiðandi hafi nemendurnir mátt vænta þess að ekki yrði veittur almennur aðgangur að verkefninu og raunar séu hagsmunir mannsins af því að fá slíkan aðgang að verkefninu í heild sinni, með nöfnum nemenda, takmarkaðir.
Neitun Háskólans á Bifröst að veita manninum þennan aðgang var því staðfest og fær hann því ekki að vita hvaða nemendur unnu þetta verkefni sem hann var svo ósáttur með.