fbpx
Þriðjudagur 01.apríl 2025
Fréttir

Íbúar fjölbýlishúss í Hafnarfirði ráðalausir út af nágranna sem heldur húsinu í heljargreipum – Vitni lýsir alvarlegri uppákomu á mánudag

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 26. mars 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðvarandi ógnarástand ríkir í fjölbýlishúsi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, en einn íbúi hefur haldið húsinu í heljargreipum undanfarin ár. Annar íbúi í húsinu lýsir mikilli vanlíðan og bjargarleysi og segist vona að yfirvöld grípi inn í aðstæður sem fyrst. Alvarlegt atvik átti sér stað í húsinu á mánudaginn þar sem kalla þurfti til lögreglu. Hafnarfjarðarbær kallar eftir virkari úrræðum ríkisvaldsins til að tryggja öryggi fólks í aðstæðum sem þessum.

Gekk berserksgang og braust inn til nágranna

Vitni lýsir atvikinu á mánudaginn sem svo að þar hafi íbúi í blokkinni, karlmaður sem glímir við erfiðan fíknivanda og andleg veikindi, gengið berserksgang þegar nágranni hans neitaði honum um peningalán og meinaði honum að koma inn í íbúð sína. Maðurinn vopnaðist hníf og reyndi að brjóta sér leið inn til nágrannans. Þar sem hann stóð á stigaganginum veitti hann sjálfum sér skaða og tókst loks að komast inn til nágrannans sem hörfaði ásamt maka sínum út á svalir og óttaðist hið versta.

Komu þá að blokkinni þó nokkrir lögreglubílar og að sögn vitnis þurfti lögregla að nota bæði rafbyssu og piparúða til að yfirbuga manninn eftir að hann neitaði að fara eftir fyrirmælum lögreglu.

„Lögregla hélt áfram að hrópa á hann, úða og gefa honum raflost í fimmtán mínútur þar til hann gafst loksins upp. Ég öfunda lögregluþjónana ekki,“ segir vitnið og tekur fram að umræddur maður sé mikill að vexti. „Lögregluþjónarnir og íbúar blokkarinnar voru með sáran hósta í meira en klukkutíma á eftir því að piparúðinn fyllti bæði stigaganginn og íbúðirnar okkar.“

Eftir að lögregla fjarlægði manninn hittust nágrannarnir á stigaganginum til að meta stöðuna. Húsráðandi í íbúðinni sem maðurinn hafði brotist inn í bauð öðrum inn til að sýna þeim ófagra aðkomu en maðurinn, sem hafði veitt sjálfum sér skaða áður en hann ruddist inn, hafði skilið eftir blóðför víða um íbúðina á meðan hann hrakti húsráðanda og maka hans út á svalir og hótaði þeim með hnífnum. Eins hafði maðurinn makað blóði á stigagang og á hurðir íbúða.

Vitnið segir að maðurinn stundi það að reyna að kúga fé úr nágrönnum sínum til að fjármagna neysluna. Þetta sé maður sem hefur oft komist í kast við lögreglu og meðal annars fengið fangelsisdóma, þar með talið fyrir rán þar sem hann var vopnaður exi.

Þetta ástand hafi verið viðvarandi undanfarin ár og íbúar blokkarinnar orðnir hræddir við að fara að versla sér í matinn af ótta við að rekast á þennan nágranna sinn. Vitnið segir að maðurinn hafi eins verið nauðungavistaður á geðdeild en í stað þess að fara þaðan í viðeigandi úrræði hafi hann verið sendur í blokkina til þeirra. „Við höfum búið með þessum ótta alltof lengi,“ segir vitnið sem jafnframt segir að um neyðarástand sé að ræða.

Umræddur maður á langan sakaferil að baki sem einkum má rekja til veikinda hans.

Bærinn tekur undir með íbúum

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöð 2, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ, staðfestir í samtali við DV að kalla þurfti til lögreglu á mánudaginn. Þar hafi lögregla yfirbugað manninn og honum í kjölfarið komið undir læknishendur. Skúli kannast í fljótu bragði ekki við svipuð útköll lögreglu á þennan tiltekna stað að undanförnu.
DV sendi sömuleiðis fyrirspurn til Hafnarfjarðarbæjar, hvort viðkomandi starfsmönnum bæjarfélagsins væri kunnugt um málið og hvort unnið væri að lausn. Samkvæmt svari bæjarins er téð fjölbýlishús í eigu bæjarins og allar íbúðir þar.

„Bærinn hefur upplýst íbúa hússins um að unnið sé að lausn. Leitað er viðeigandi úrræða og leiða til að tryggja öryggi íbúa.“

Bærinn svaraði ennfremur almennri fyrirspurn blaðamanns um hvað bærinn gerir í svona málum og hvaða úrræði séu í boði. Þar tekur Hafnafjarðarbær undir með íbúum að það taki lengri tíma en ásættanlegt er að vinna úr svona málum. Bærinn kallar eftir því að ríkisstjórn og löggjafi komi á virkari úrræðum svo hægt sé að tryggja öryggi fólks í málum sem þessum.

„Almennt má segja að bærinn geri allt sem honum er heimilt til að leysa vanda sem kemur upp vegna þeirra sem þiggja þjónustu á vegum hans. Komi upp mál þar sem fólk óttast um öryggi sitt er það hvatt til þess að kalla til lögreglu.

Sveitarfélagið fylgir þeim lagaramma sem við á ef íbúar í félagslegu húsnæði valda ónæði eða ef öðrum íbúum stafar ógn af þeim. Það getur því tekið lengri tíma en nágrönnum finnst ásættanlegt. Hafnarfjarðarbær tekur undir það og kallar eftir virkari úrræðum ríkisvaldsins til að tryggja öryggi fólks þegar svo ber undir.

Mál þurfa almennt ekki að vera alvarleg til að bærinn grípi inn í. Íbúar í félagslegu húsnæði fá almennt áminningu sé kvartað undan þeim. Bregðist fólk ekki við fer málið í viðeigandi meðferð, jafnvel fyrir dómstóla.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Rýming í Bláa lóninu gekk vel

Rýming í Bláa lóninu gekk vel
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Kvikuhlaup hafið á Reykjanesskaga – „Líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið“

Kvikuhlaup hafið á Reykjanesskaga – „Líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Könnun Icelandair – Mikill meirihluti hefur áhyggjur af gervigreind í ferðaþjónustu

Könnun Icelandair – Mikill meirihluti hefur áhyggjur af gervigreind í ferðaþjónustu
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir

Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir