Þar gerir hann ristilkrabbamein að umtalsefni og segir hann að þessi tegund krabbameins fari ekki í manngreinarálit og allir séu í hættu, hverjir sem þeir eru.
Bendir hann á að eftir meira en 40 ára umræðu og allnokkurn undirbúning hafi nú komið fram í fjölmiðlum að brátt skuli hefja lýðgrundaða skimun eftir ristilkrabbameini hjá takmörkuðum hópi fólks hér á landi. Fyrst um sinn verður leitað að blóði í hægðum hjá einkennalausu fólki sem hefur náð 69 ára aldri, en leit síðan aukin hjá fleiri aldurshópum, að fenginni reynslu.
„Víða um heim er nú vakin athygli á baráttunni gegn ristilkrabbameini og er marsmánuður tileinkaður þeirri baráttu á hverju ári. Samtökin World Endoscopy Organization (WEO) hafa hvatt til vitundarvakningar í þessum mánuði,” segir Ásgeir.
Hann nefnir að á hverju ári greinist um tvær milljónir manna með krabbamein í ristli og endaþarmi sem síðan hefur alvarleg áhrif á milljónir einstaklinga á heimsvísu.
„Það er sorglegt til þess að vita að um ein milljón manns láti lífið árlega og er sjúkdómurinn ein aðaldánarorsökin á okkar tímum. Þetta minnir alvarlega á að knýjandi þörf er fyrir aukna vitund okkar um sjúkdóminn, aðferðir til að greina hann snemma og aðgerðir til að fjarlægja forstig hans og fyrirbyggja frekari vöxt og útbreiðslu,“ segir hann.
Eins og að framan greinir segir Ásgeir að allir séu í hættu og sjúkdómurinn fari ekki í manngreinarálit.
„Áhættuþættir takmarkast ekki við aldur eða uppruna. Lífsstíll svo sem takmörkuð hreyfing, óholl fæða, reykingar og óhófleg neysla áfengis eykur áhættuna á að fá sjúkdóminn. Sjúklingar með bólgusjúkdóma í meltingarvegi og fjölskyldusögu um ristilkrabbamein eru í meiri áhættu. Þrátt fyrir að einkenni eins og blóð í hægðum, viðvarandi kviðverkur og óskýrð megrun séu viðvörunarmerki getur sjúkdómurinn oft búið um sig og versnað án einkenna þar til hann er greindur á síðari stigum,“ segir hann og bætir við að af þessum ástæðum hafi þetta krabbamein því verið nefnt „hinn þögli morðingi“. Þetta sé ástæðan fyrir því að reglubundin skimun, það er leit hjá einkennalausum einstaklingum, sé nauðsynleg og skynsamleg.
„Nú er mælt með að reglubundin skimun eftir ristilkrabbameini byrji að jafnaði hjá einkennalausum einstaklingum sem eru 45 eða 50 ára og haldi áfram til 75. aldursárs. Tilgangurinn felst í að finna og fjarlægja forstigið og krabbamein á byrjunarstigi, en þá næst bestur árangur. Ákjósanlegast er að skimunin sé framkvæmd með skipulögðum lýðgrunduðum hætti með því markmiði að sem allra flestir af þeim sem eru boðaðir verði þátttakendur,“ segir Ásgeir.
Hann segir að ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og leiðenda á sviði meltingarlækninga sé mikil í að fræða og gera fólki kleift að skilja mikilvægi forvarna gegn ristilkrabbameini.
„Forvarnaraðgerðir (t.d. ristilspeglun) og snemmgreining lækka nýgengi og dánartíðni. Við verðum þess vegna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að fólk, hver svo sem staða þess er í þjóðfélaginu, geti nýtt sér þær upplýsingar og aðgerðir sem beitt er,“ segir Ásgeir sem sendir brýningu til landsmanna að lokum.
„Höldum áfram baráttunni, með ákveðni, ástríðu og þeirri staðföstu trú að við getum náð því takmarki í framtíðinni að fólk falli ekki í valinn að óþörfu vegna krabbameins í ristli og endaþarmi. Í þessum marsmánuði er því takmarkið að við sameinumst á heimsvísu í vitundarvakningu gegn ristilkrabbameini. Kynntu þér hvað þú getur gert til að fyrirbyggja þetta krabbamein, sem er eitt af örfáum krabbameinum þar sem við þekkjum forstigin og getum brugðist við.“