fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Fréttir

„Lögin í dag segja að til dæmis mætti sjötug manneskja eiga í kynferðislegu sambandi við 15 ára gamalt barn“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 24. mars 2025 15:20

Guðný S. Bjarnadóttir stjórnarformaður Vitundar, Samtaka gegn kynbundnu ofbeldi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Lögin í dag segja að til dæmis mætti sjötug manneskja eiga í kynferðislegu sambandi við 15 ára gamalt barn. Tilraunir Gísla Rafns Ólafssonar, fyrrum Alþingismanns, til að hækka samræðisaldur upp í 18 ára mættu mótstöðu og ákvæði þess efnis að samræði fullorðinna við börn, 15-17 ára, yrði refsivert, var glufa sem ekki tókst að loka,“

segir Guðný S. Bjarnadóttir stjórnarformaður Vitundar, Samtaka gegn kynbundnu ofbeldi í skoðanapistli sínum.

Segir hún umræðu síðastliðna daga um kynferðislegt samband 22 ára konu við 16 ára gamlan dreng vera góða áminningu m að réttarvernd barna á Íslandi er verulega ábótavant. Mikið hefur verið ritað og rætt um mál Ásthildar Lóu Þórisdóttur fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra síðustu daga. 

„Á meðan hluti þjóðarinnar keppist við að afsaka athæfið undir formerkjum tíðarandans 1989 má skynja að mörgum þykir ekkert athugavert við kynferðislegt samband fullorðinna við unglinga. Eða hvað? Var þetta ekki bara þá?“

Í nýlegri yfirlýsingu konu sem átti í slíku sambandi segir meðal annars skrifar Guðný og vísar til yfirlýsingar Ásthildar Lóu Þórisdóttur, sem send var fjölmiðlum síðastliðinn föstudag:

„Þótt ég hefði ekk­ert sér­stak­lega verið að spá í það í þess­um aðstæðum, þá var 16 ára sjálfræðis­ald­ur­inn á þess­um tíma og sambönd milli fólks á þess­um aldri voru alls ekki óal­geng þótt þau þættu ekki æski­leg. Ald­urs­mun­ur­inn var hins veg­ar nær alltaf í hina átt­ina.“

Sjá einnig: Yfirlýsing Ásthildar Lóu – „Af sögum hans að dæma var hann mun reyndari en ég varðandi kynferðismál“

Ábyrgðin alltaf hjá þeim eldri

Guðný segir að það sé nú samt þannig að við berum alltaf ábyrgð á samskiptum okkar við aðra og þá sérstaklega við börn. 

„Það þarf engar rannsóknir til að segja okkur það að á milli 22 ára og 16 ára einstaklinga ríkir valdaójafnvægi og töluverður þroskamunur. Þolendur sem hafa kært gerendur þar sem svipar til aldursbils aðila á þessum aldri mæta oftar en ekki afsökunum á borð við „en hún/hann var lögríða“, „hún/hann leit út fyrir að vera eldri“ og „hún/hann sótti svo mikið í mig“. Það skiptir engu máli hvort barnið sýndi frumkvæði, samþykki eða jafnvel „elskaði“ hinn aðilann. Ábyrgðin hvílir alltaf á herðum þess eldri – og það er hann eða hún sem á að setja mörkin. Að halda slíku sambandi áfram í skjóli þess að barnið hafi „viljað það“ er tilvistarleg afneitun á því valdaójafnvægi sem slíkt samband byggir á.“

Guðný segir staðreyndina þá að kynferðisleg sambönd fullorðinna við börn eru ekki tengd neinum tíðaranda. 

„Þetta er núna. Þessi saga er að endurtaka sig á hverjum degi á Íslandi. Á meðan Hæstiréttur tekur nú fyrir mál þar sem verið er að skoða hvort barn undir 15 ára geti gefið samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum er fólk að verja kynferðisleg samskipti eldri aðila við barn. Með þessu erum við að líta framhjá öllum þeim þolendum sem voru, eru og eiga eftir að vera í þessum aðstæðum.“

Mátti þetta einhvern tímann?

Guðný minnir á nýlega vitundarvakningu VIRK „Það má ekkert lengur“ þar sem áherslan var lögð á óæskilega hegðun og kynferðislegt áreiti á vinnustöðum. 

 „Mikil umræða skapaðist út frá henni þar sem konur afsökuðu ofbeldismenn með tíðarandanum. Skilaboð herferðarinnar voru; „Mátti þetta einhvern tímann?“ Sem samfélag stöndum við nú á svipuðum siðferðislegum krossgötum og nú þarf að ákveða hvert við viljum stefna.

Í þeirri samfélagsumræðu sem nú stendur yfir er svo mikilvægt að hún verði fordæmisgefandi með því að halda fókus á kjarnann: vernd barna, ábyrgð fullorðinna og grundvallarskilning á því hvað samþykki þýðir – og hvað það getur ekki þýtt þegar barn á í hlut.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“
Fréttir
Í gær

Mega ekki afhenda Skattinum umbeðnar upplýsingar

Mega ekki afhenda Skattinum umbeðnar upplýsingar
Fréttir
Í gær

Telja að valkyrjurnar hafi hlaupið á sig og efa að Ásthildur snúi aftur á þing – „Ég horfi bara á bugaða manneskju“

Telja að valkyrjurnar hafi hlaupið á sig og efa að Ásthildur snúi aftur á þing – „Ég horfi bara á bugaða manneskju“