fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Fréttir

Albani sem grunaður var um fíkniefnasölu rekinn úr landi – Gekk í málamyndahjónaband til að fá að dvalarleyfi

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 24. mars 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest synjun Útlendingastofnunar á umsókn albansks karlmanns um dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES- eða EFTA borgara en hann gekk í hjónaband með konu frá ónefndu ríki sem á aðild að EES-samningnum. Var umsókninni hafnað einkum á þeim grundvelli að um málamyndahjónaband væri að ræða en á meðan dvöl mannsins hér á landi stóð var hann handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna. Fékk maðurinn 15 daga frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur ella myndi hann sæta brottvísun.

Úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp 28. febrúar síðastliðinn en fyrst birtur í dag. Maðurinn kærði synjunina í október 2024. Ekki kemur fram frá hvaða landi konan er en tekið fram að það land sé aðili að EES-samingnum sem þýðir að konan hefur sjálfkrafa dvalarleyfi hér á landi, en hún skráði búsetu sína hér sumarið 2022. Það kemur heldur ekki fram hvenær þau gengu nákvæmlega í hjónaband, en þó að þau hafi gert það hér á landi, en í kjölfarið sótti maðurinn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES- eða EFTA borgara. Útlendingastofnun hafnaði umsókninni á grundvelli þess að hjónbandið væri til málamynda og stofnað hefði verið til þess í þeim tilgangi að afla manninum dvalarleyfis.

Tókst ekki að sanna

Í úrskurðinum kemur fram að Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að um málamyndahjónaband væri að ræða einkum á þeim grundvelli að ekki hefðu verið færðar sönnur á fullyrðingar mannsins og konunnar um samvistir á árunum fyrir hjúskap, og kunningsskap frá barnsaldri. Einnig hafi fengist upplýsingar sem komu fram í búseturannsókn lögreglu í mars 2023. Sömuleiðis hafi konan, að langstærstum hluta, dvalið í heimalandi sínu í kjölfar hjúskaparins. Sömuleiðis hafi komið fram upplýsingar í viðtölum við manninn og konuna sem bentu til þess að þau hafi ekki varið miklum tíma saman. Þá hafi Útlendingastofnun talið að tiltekin gögn á borð við stuðningsbréf nákominna og ljósmyndir, samskipti o.fl. væru til þess fallin að villa um fyrir stjórnvöldum, sem dregið hafi úr trúverðugleika gagnanna.

Nefndin segir einnig að gögn sem sýni fram á að sambúð konunnar og mannsins eða náið samband að öðru leyti í Albaníu fyrir stofnun hjúskaparins hafi ekki verið lögð fram.

Maðurinn var handtekinn í mars 2023 vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna en þá hafði hann greiðslukort konunnar undir höndum. Í kjölfarið var gerð rannsókn á heimili mannsins sem að sögn hans var heimili konunnar líka. Sagði maðurinn konuna vera stadda í heimalandi sínu vegna veikinda móður sinnar en lögreglan fann fá merki um að á heimilinu byggi kona. Engar snyrtivörur fyrir konur fundust og einu kvenmannsfötin voru tveir jakkar og ein peysa.

Í viðtölum mannsins og konunnar hjá Útlendingastofnun kom fram að hún hefði lítið dvalið á landinu eftir að þau gengu í hjónaband.

Hafi skrifað öll bréfin

Í úrskurðinum kemur fram að meðal gagna sem hjónin lögðu fram til að sanna að hjónabandið væri ekki til málamynda hefðu verið bréf frá vinum og fjölskyldumeðlimum mannsins. Hafi Útlendingastofnun framkvæmt rannsókn á bréfunum og komist að þeirri niðurstöðu að þau hefðu verið öll skrifuð af sama einstaklingnum og hefði það verið gert til að villa um fyrir stofnuninni. Nefndin segir að þar sem bréfin hafi ekki verið skoðuð af rithandarsérfræðingi yrði þessi niðurstaða um að einn maður hafi skrifað öll bréfin ekki lögð til grundvallar við ákvörðun nefndarinnar, þó að bréfin hafi vakið upp spurningar um sannleiksgildi þeirra.

Nefndin horfði sérstaklega til þess að engin gögn hafi verið lögð fram sem sönnuðu að konan og karlinn hefðu þekkst lengi og búið saman áður en þau komu til Íslands. Þar að auki hefðu þau aðeins lagt fram gögn um samskipti sín á milli sem áttu höfðu sér stað eftir að þau komu til landsins.

Hjónin skýrðu mikla fjarveru konunnar frá landinu með því að hún væri að aðstoða móður sína vegna veikinda hennar en Útlendingastofnun taldi ekki nauðsynlegt að konan dveldi í sífellu hjá móður sinni. Svo alvarleg væru veikindin ekki.

Nefndin horfði til alls þessa við ákvörðun sína um að staðfesta synjun Útlendingastofnunar á umsókn mannsins um dvalarleyfi en einnig þess að maðurinn hefði dvalið ólöglega á landinu áður en hann og konan gengu í hjónaband. Segir nefndin að Útlendingastofnun hefði vegna þessarar ólöglegu dvalar átt að vísa manninum úr landi. Nefndin veitir honum því 15 daga frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur en geri hann það ekki eigi Útlendingastofnun að vísa honum úr landi.

Eins og áður segir féll úrskurðurinn 28. febrúar síðastliðinn og ekki liggur fyrir hvort maðurinn hafi yfirgefið landið sjálfviljugur eða hvort þarf að vísa honum úr landi með formlegri ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“
Fréttir
Í gær

Mega ekki afhenda Skattinum umbeðnar upplýsingar

Mega ekki afhenda Skattinum umbeðnar upplýsingar
Fréttir
Í gær

Telja að valkyrjurnar hafi hlaupið á sig og efa að Ásthildur snúi aftur á þing – „Ég horfi bara á bugaða manneskju“

Telja að valkyrjurnar hafi hlaupið á sig og efa að Ásthildur snúi aftur á þing – „Ég horfi bara á bugaða manneskju“