„Eins og ég sagði við hana þegar hún hringdi í mig. Ég sagði, ástæðan fyrir því að ég vil að þú víkir sem barnamálaráðherra, þú skreiðst upp í til fimmtán ára stráks og það er nóg fyrir mig.“
Svo mælir Ólöf Björnsdóttir, fyrrverandi tengdamóðir barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menningarmálaráðherra. Í viðtali við RÚV lýsir Ólöf ástæðu þess að hún tók sig til og sendi tölvupóst á forsætisráðuneytið og óskaði eftir fundi með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, um málefni Ásthildar Lóu.
Rétt er að geta þess að fyrr í dag baðst Ólöf undan viðtali við DV að svo stöddu á meðan hún íhugaði hvernig hún myndi svara fyrir sig.
Talsvert hefur verið tekist á um hvort að forsætisráðuneytið hafi brotið trúnað með því að aðstoðarmaður Kristrúnar kom þeim skilaboðum til Ásthildar Lóu að Ólöf væri að falast eftir fundi með forsætisráðherra til að ræða eitthvað tengt henni. Í kjölfarið hringdi Ásthildur Lóa í Ólöfu til að grennslast fyrir um hvað hún hefði í hyggju og mætti sömuleiðis heim til hennar í Kópavog.
RÚV hefur aðeins birt brot úr áðurnefndu viðtali en í því kemur fram að Ólöf hafi viljað fullan trúnað um málið og að hún hafi viljað hitta Kristrúnu í nokkrar mínútur, segja henni frá erindi sínu og svo gæti forsætisráðherrann í kjölfarið kallað Ásthildi Lóu á fundinn ef Kristrún teldi það heppilegt.
„Ég er ekki að bjóða Ásthildi Lóu á fundinn. Ég er bara að benda Kristrúnu á það að þegar hún er búin að fá að vita hvert málefnið er, af því ég var að reyna að koma því að að það væri málefni sem væri svolítið viðkvæmt og snerti hana, Ásthildi. Ef Kristrún vildi hitta mig og fá að vita efnið þá mætti hún kalla á Ásthildi inn, og ég skyldi alveg feisa hana með af hverju ég væri í þessum látum,“ segir Ólöf.
Hún sé á því að forsætisráðuneytið hafi framið trúnaðarbrot með því að gefa ráðherranum fráfarandi upp nafn hennar og hún hafi verið rasandi hissa þegar Ásthildur Lóa bankaði uppá á heimili hennar kl.22 að kvöldi til. Hún hefði talið rétt að ráðuneytið hefði beðið hana um leyfi fyrir því að nafnið hennar yrði gefið upp til Ásthildar Lóu.
RÚV fjalla nánar um málið í kvöldfréttum kl.19.00.