fbpx
Laugardagur 22.mars 2025
Fréttir

Málið gegn Hauki: Sýrlenski bílstjórinn segist vera 80% öryrki eftir árásina – „Ég hélt ég væri dáinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 21. mars 2025 16:00

Hinn ákærði, Haukur Ægir Hauksson. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brotaþoli í máli gegn Hauki Ægi Haukssyni bar vitni við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Haukur er sakaður um manndrápstilraun gegn manninum, sem Haukur þvertekur fyrir, en hann segist hafa neytt aflsmunar gegn manninum til að verjast ofbeldi hans og tryggja að lögregla handtæki manninn, sem sakaður var um kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi kærustu Hauks. Maðurinn var fluttur meðvitundarlaus á bráðadeild eftir að Haukur hafði haldið honum í um sjö mínútur í kyrkingartaki á bílaplani skammt frá heimili sínu.

Sjá einnig: Réttarhöld hafin yfir Hauki sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps – „Flestir feður hefðu brugðist eins við og ég þetta kvöld“

Brotaþolinn er sýrlenskur maður, sem lítur út fyrir að vera um sextugt. Maðurinn, sem er nokkuð smágerður, bar vitni með aðstoð túlks. Atburðurinn átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 11. mars árið 2023. Dóttir þáverandi kærustu Hauks hafði samband við hann og móður sína og var grátandi í símanum. Haukur leiðsagði henni og bílstjóranum að heimili hans. Er þau komu þangað sagði stúlkan móður sinni frá því að bílstjórinn hefði brotið gegn henni kynferðislega en hún sakar um að hafa meðal annars káfað gróflega á henni innanklæða. Var maðurinn ákærður fyrir þetta brot. Átök brutust út á milli bílstjórans, móður stúlkunnar og Hauks, sem leiddu til þess að Haukur var ákærður fyrir tilraun til manndráps. Nánar segir frá þessum átökum hér.

Sagði móðurina hafa kýlt sig og bölvað múslimum

Bílstjórinn greindi frá því að fljótlega eftir að móðirin hafði sest inn í bílinn hefði dóttir hennar farið inn í hús. Móðirin hefði sakað hann um að káfa á dóttur hennar og hefði barið til hans hvað eftir annað. Sagði hann að hún hefði kýlt sig aftur og aftur og kallað ókvæðisorð um múslima á meðan hún barði hann. Hann sagði konuna hafa hringt símtal á meðan hún var að berja hann en hann vissi ekki hvort hún hefði hringt í lögregluna eða eitthvað annað.

Hann var spurður hvort hann hefði sjálfur slegið til konunnar inni í bílnum og sagði hann: „Ég hrækti og það var blóð.“

Hann sagði Hauk síðan hafa sest inn í aftursæti bílsins og þau tvö hafi haldið áfram að berja hann. Honum hafi farið að blæða og þau hafi „farið að draga sig til baka af því það var svo mikið blóð.“ Maðurinn segist síðan hafa farið út úr bílnum, konan hafi farið frá en Haukur hafi haldið áfram að berja sig. Maðurinn kannaðist ekki við að hafa barið Hauk með spýtu en sagðist geyma prik í bílnum.

Hann var spurður hvort hann hefði verið tekinn hálstaki fyrir utan bílinn og sagði hann, „já, svona,“, og sýndi kyrkingartak Hauks með handleggnum. Hann sagðist hafa náð andanum en hafi fundið fyrir öndunarerfiðleikum allan tímann sem Haukur var með hann í takinu. Hann sagðist aðeins hafa verið farinn að slaka á þegar hann heyrði að lögreglan var að koma en hann hafi síðan verið búinn að missa meðvitund þegar lögregla var komin á staðinn. „Ég hélt ég væri dáinn,“ sagði hann þegar hann var spurður hvort hann hefði óttast um líf sitt.

Andlegar og líkamlegar afleiðingar af árásinni

Aðspurður um afleiðingar af árásinni dró maðurinn fram poka með lyfjum og vildi sýna saksóknara lyfin sem hann þyrfti að taka. Saksóknari afþakkaði það boð, en um er að ræða bæði róandi lyf og verkjalyf. Maðurinn sagðist vera 80% öryrki eftir árásina og vera óvinnufær. Sagðist hann meðal annars þjást af langvarandi meiðslum í öxl. „Ég er óvinnufær, ég fer í sjúkraþjálfun,“ sagði hann. Auk þess sagðist hann þjást af höfuðverk og svefntruflunum. Afleiðingar af árásinni væru bæði andlegar og líkamlegar.

Ósamræmi var í framburði mannsins varðandi spýtu sem var beitt í átökunum. Fyrir dómi sagðist hann ekki eiga spýtuna sem hafði verið beitt en konan, þ.e. kærasta Hauks, hafi verið með spýtuna. Í lögregluskýrslu sagði hann hins vegar að þetta væri hans spýta. Hann sagði fyrir dómi er honum var bent á þetta: „Hún var með prik en ég veit ekki hvaðan það kom.“

Fyrir liggur að Haukur var með stóra kúlu á enninu eftir átökin og segir hann að maðurinn hafi lamið sig með spýtu í höfuðið. Maðurinn neitar að hafa gert þetta og gat ekki gefið skýringar á kúlunni á höfði Hauks.

Brotaþolinn krefst tveggja og hálfrar milljóna króna af Hauki í miskabætur.

DV mun segja fleiri fréttir af málinu á morgun, laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Óeining í Skagafirði um framtíð Héraðsvatna

Óeining í Skagafirði um framtíð Héraðsvatna
Fréttir
Í gær

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“