Fjöldi Evrópuríkja hefur nú varað við ferðalögum til Bandaríkjanna. Þessum viðvörunum er helst beint til trans fólks. Danmörk hefur nú ráðið dönsku trans fólki frá slíkum ferðalögum og Finnland hefur eins varað trans samfélag sitt við.
Bretland hefur þó varað alla þegna sína við ferðalögum og bent á að mistök við umsókn um vegabréfsáritun geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þýskaland uppfærði ráðleggingar vegna ferðalaga Þjóðverja til Bandaríkjanna í vikunni til að benda á að vegabréfsáritun eða landvistarleyfi séu ekki öruggar ferðaheimildir, en nokkrir Þjóðverjar hafa verið teknir til fanga í Bandaríkjunum, sumum þeirra haldið í fangaklefa vikum saman.
„Þið ættuð að fara eftir öllum skilyrðum hvort sem það er vegabréfsáritun eða aðrar ferðaheimildir. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa sett og framfylgja ströngum skilyrðum fyrir landvist. Þið gætuð átt yfir höfði ykkar handtöku og varðhald ef þið brjótið reglurnar.“
Yfirmaður hinsegin málefna hjá danska ríkinu segist óttast að danskir ríkisborgarar úr trans samfélaginu verði stöðvaðir við landamærin og látnir sæta óviðurkvæmlegri meðferð.
Kanadískur þingmaður var eins ómyrkur í máli á dögunum þegar hann sagði Kanadabúum: „Ég hvet fólk til að ferðast ekki til Bandaríkjanna“.
Fyrir tveimur dögum var greint frá því að bakpokaferðalangi frá Wales hefði verið haldið í 19 daga í varðhaldi á vegum útlendingastofnunar Bandaríkjanna eftir að hann var handtekinn við landamærin við Kanada. Um er að ræða 28 ára gamla konu og hún lýsir haldinu sem hreinu helvíti. Rebecca Burke var sökuð af landamæravörðum um að ætla sér að vinna án atvinnuleyfis í Bandaríkjunum. Þetta mat byggði á því að hún ætlaði að gista hjá gestgjafafjölskyldu og hjálpa þeim í skiptum með húsverkin. Hún hafði áður gert þetta sama í byrjun árs án vandræða.
Hinni þýsku Jessicu Brösche var haldið í 46 daga og samlanda hennar Lucas Sielaff var haldið í 16 daga. Þau segjast hafa orðið fyrir miklu harðræði. Meðal annars var þeim neitað um túlk, konunni var haldið í einangrun í rúma viku og báðum var svo vísað úr landi án þess að fá nokkra skýringu á því hvað þau gerðu rangt.
„Stundum vakna ég upp á nóttunni eftir martröð um þessa reynslu og það sem átti sér stað. Ég reyni að fara í göngutúra til að róa mig,“ sagði Sielaff í samtali við fjölmiðla. Hann var að heimsækja kærustu sína sem býr í Las Vegas og starfar sem sálfræðingur. Þau ákváðu að skella sér í til Mexíkó með hund kærustunnar til að koma honum til dýralæknis. Þegar þau sneru aftur var Sielaff handtekinn við landamærin.
Vinkona Brösche segir að hún hafi ekki sofið á meðan hún var í haldi heldur lá hún andvaka og grét. Hún treysti sér ekki sem stendur til að ræða lífsreynsluna enda þurfi hún nokkra daga til að jafna sig og ná áttum. Brösche var að heimsækja vinafólk í Bandaríkjunum en virðist hafa unnið sér það til saka að taka húðflúrsgræjurnar sínar með. Þar með töldu landamæraverðir að hún ætlaði sér að vinna án heimildar í Bandaríkjunum, eitthvað sem stóð þó ekki til hjá henni.
Hin kanadíska Jasmine Mooney var líka handtekin og haldið í 12 daga, þrátt fyrir að hafa ítrekað boðist til að borga sjálf flugið heim til Kanada. Hún heldur því fram að sér hafi viljandi verið haldið þar sem svokallaðar innflytjendabúðir eru einkareknar. „Því fleiri sem eru í haldi, því meira græða þeir. Það mætti færa rök fyrir því að þessi fyrirtæki séu ekkert að flýta sér að sleppa fólki. Þannig fór ég að skilja hvað var á bak við þessa reynslu.“