Hefur þú, lesandi góður, heyrt ráðamenn tala um í sífellu að við séum meðal ríkustu þjóða í heimi, ef ekki sú ríkasta. Trúa þeir þessu sjálfir eða eru þeir að reyna að telja okkur trú um það? Hefurðu velt því fyrir þér hvað þeir eiga við? Vita þeir eitthvað sem við vitum ekki? Er það rík þjóð þar sem t.d:
– vegakerfið er í molum? (Ráðgert er að fjárfesta fyrir hundruð milljarða í Borgarlínu og Sundabraut á meðan fólk kemst varla skammlaust á milli staða víða á landsbyggðinni.)
– fólk þarf að bíða mánuðum saman, jafnvel árum, eftir lífsbætandi aðgerðum, t.d. liðskipta- og augnsteinaaðgerðum?
– fólk liggur á göngum og í geymslum á þjóðarsjúkrahúsinu af því að ekki eru til næg rými á hjúkrunarheimilum?
– ekki eru til úrræði fyrir börn með s.k. fjölþættan vanda? (Við neyðarvistum þau í fangaklefum í Hafnarfirði.)
– fjölmargir öryrkjar og ellilífeyrisþegar eiga varla til hnífs og skeiðar?
– orkuöflun og dreifikerfi raforku er í molum? (Það slær út lekaliði á Grundartanga og allt Norðurland er rafmagnslaust.)
– fasteignir í eigu ríkisins og sveitarfélaga eru að hruni komnar vegna skorts á viðhaldi? (Við virðumst alltaf eiga nóg af peningum til að byggja nýtt, en aldrei krónu til viðhalds gömlu. Við erum dugleg að spara aurinn en kasta krónunni.)
– ungt fólk fer utan til náms og kýs að snúa ekki aftur heim vegna þess að við getum ekki boðið þeim mannsæmandi laun og aðstöðu? (Börnin þeirra komast ekki inn í leikskóla og í grunnskóla eiga þau á hættu að verða barin í klessu. Eigum við eitthvað að ræða íbúðarverð og vaxtaokur? Gæti þetta verið ein ástæða hinnar margumtöluðu manneklu, t.d. í heilbrigðiskerfinu?)
– börn þurfa að bíða mánuðum saman, ef ekki árum, eftir nauðsynlegri þjónustu, t.d. talmeinafræðinga?
Ef þú, lesandi góður, ert farinn að hafa efasemdir um meint ríkidæmi okkar eftir að hafa lesið þessa upptalningu, þá veltirðu e.t.v. fyrir þér af hverju ráðamenn er stöðugt að tönnlast á því hvað við séum rík þjóð. Er það vegna þess að við t.d.:
– borgum háa skatta með glöðu geði og munar ekki um að styrkja starfsemi stjórnmálaflokka (afsakið, stjórnmálasamtaka) með okkar skattfé?
– greiðum hærri vexti en aðrir Norðurlandabúar?
– sættum okkur við eitt hæsta matarverð sem þekkist í Evrópu?
– borgum möglunarlaust hæsta eldsneytisverð á byggðu bóli?
– kippum okkur ekki upp við endalausa og síhækkandi gjaldtöku af hinu og þessu? (Og ef ráðamenn skortir ímyndunarafl vegna mögulegra nýrra gjaldstofna, má alltaf leita ráða hjá gjaldafíflunum í Brussel. Hugmyndaauðgi þeirra er viðbrugðið.)
– eyðum milljörðum í fangelsi til að hýsa erlenda gæpamenn?
– byggjum brú yfir Ölfusá fyrir 18 milljarða og aðra yfir Fossvog fyrir 8 milljarða?
– getum eytt milljörðum í stríðsrekstur í útlöndum?
– greiðum milljarða á ári fyrir allskonar óþarfa eftirlit án þess að depla auga?
– kaupum íbúðir á s.k. þéttingarreitum, sem kosta á við þokkaleg einbýlishús?
Veit ekki með þig, lesandi góður, en ég held reyndar að það sé ekki þetta sem ráðamenn eru að hugsa um þegar þeir klifa á því hvað við séum rík þjóð. Nei, ég held að þeir fái þessa flugu í höfuðið þegar þeir skoða launaseðilinn sinn um hver mánaðarmót.
Tillaga: Setjum á fót nýtt ráðuneyti, ráðuneyti áhersluverkefna. Okkur munar ekkert um eitt ráðuneyti í viðbót, við erum nefnilega svo rík.
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.