Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í dag að lækka stýrivexti um 0,25 prósent. Fara stýrivextir því úr 8,0 prósentum í 7,75 prósent.
Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu um lækkunina. Þetta er fjórða stýrtivaxtalækkunin í röð.
„Verðbólga var 4,2% í febrúar og hefur ekki verið minni í fjögur ár. Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur því einnig minnkað. Útlit er fyrir að áfram dragi úr verðbólgu á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.
Segir að hægt hafi á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnu og að spenna þjóðarbúsins sé í rénun. Að sama skapi hafi dregið úr umsvifum á húsnæðismarkaði. Hins vegar bendi hátíðnivísbendingar til þess að neysluútgjöld heimila hafi aukist á ný. Enn er mikil hækkun launakostnaðar og verðbólguvæntingar eru áfram yfir markmiðum.
„Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.
Vextir verða því sem hér segir: