Nýlega var greint frá því að kona frá Reykjanesbæ hefði verið sökuð um svæsið umsáturseinelti (e. stalking) gegn mörgum manneskjum og kærur lægju fyrir hjá lögreglu á hana frá a.m.k. fjórum aðilum, þar á meðal Garpi. Sagði hann konuna hafa eltihrellt sig í um eitt ár og hafi nýlega byrjað að áreita dóttur hans.
Sjá einnig: Kona frá Reykjanesbæ sökuð um svæsið umsáturseinelti – „Ég er einn þeirra sem kærðu ásamt dóttur minni“
Vísir birtir í dag viðtal við Garp og Sölva Guðmundarson sem einnig hefur orðið fyrir barðinu á umræddri konu.
Í viðtalinu við Garp kemur fram að hann hafi komist í kynni við konuna í gegnum Instagram í apríl í fyrra. Þau hafi skipst á skilaboðum, spjallað saman og loks varið kvöldstund saman þar sem þau sváfu saman. Garpur kveðst ekki hafa haft áhuga á frekari kynnum við konuna en þau engu að síður haldið áfram að spjalla. Hann hafi ekki viljað særa hana.
Vísir birtir svo skjáskot af skilaboðum sem Garpur fékk frá fölskum aðgangi tíu dögum síðar, sem Garpur segir að séu frá konunni, þar sem hún sagði:
„Fallegi maðurinn sem ég elska svo heitt. Hættu að fara svona illa með mig og láttu þessar ungu konur vera. Ég hef beðið vinkonur þínar formlega í skilaboðum að láta þig vera svo við getum notið saman lífsins.“
Í kjölfarið byrjaði áreitið, að sögn Garps, og mun konan hafa byrjað að senda skilaboð á fólk í kringum hann, fyrrverandi kærustur þar á meðal. Sendi hún skilaboð á barnsmóður hans þar sem hún sakar hann um að hafa áreitt sig. Þá birtist nafnlaus færsla í Facebook-hópnum Stöndum saman – Stefnumótaforrit þar sem viðkomandi lýsti ofbeldi af hálfu manns sem er þekktur í þjóðfélaginu og frekar opinber persóna á Instagram. Í athugasemdum undir færslunni sagði viðkomandi að nafn gerandans byrjaði á G.
Garpur kveðst hafa frétt af færslunni í gegnum samstarfskonu sína og upplifað mikið panikk og kvíða. Í umfjöllun Vísis lýsir Garpur meðal annars samskiptum sínum við lögreglu og frekara áreiti af hálfu konunnar sem hefur staðið yfir í tæpt ár.
Í viðtalinu segist hann ekki vilja konunni neitt illt en telur að benda þurfi á brotalamir í kerfinu þegar kemur að réttarstöðu þolenda umsáturseineltis. Benti Garpur á í færslu sem hann skrifaði nýlega á Facebook að lögregla hefði brugðist í málinu og kerfið í heild sinni.
„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum, þetta er stöðugt hangandi yfir mér, alla daga,“ segir hann meðal annars.