Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla þá stefnir í fleiri réttarhöld yfir Dominique vegna mjög alvarlegra ásakana.
Mál Giséle hefur verið sagt vera eitt skelfilegasta dómsmálið í franskri réttarfarssögu. Dominique var fundinn sekur um að hafa deyft eiginkonu sína hvað eftir annað á tíu ára tímabili og að hafa leyft fjölda ókunnugra karlmanna að nauðga henni á meðan hún var meðvitundarlaus. Þetta fór allt fram á heimili þeirra í franska bænum Mazan. Hann tók ofbeldið upp og geymdi upptökurnar í tölvunni sinni.
Í öll þessi ár grunaði engan neitt og allir héldu að Dominique væri hinn fullkomni eiginmaður, faðir og afi, allt þar til leyndarmálin komu fram í dagsljósið. En nú virðist sem enn eigi eftir að velta mörgum steinum við í málum Dominique.
Þegar réttað var yfir Dominique síðasta haust kom fram að í tölvu hans hefðu einnig fundist myndir af dóttur þeirra hjóna, Caroline Darian, liggjandi meðvitundarlaus í rúmi, aðeins íklædd stuttermabol og nærfötum.
Caroline sagði fyrir dóminn að hún myndi ekki eftir þessu og kannaðist ekki við nærfötin sem hún var í á myndinni.
Hún er nú svo sannfærð um að faðir hennar hafi einnig brotið gegn henni og hefur því lagt fram kæru á hendur honum.
„Ég lít á mig sem gleymda fórnarlambið í þessu máli. Giséle var nauðgað þegar hún var meðvitundarlaus, það vitum við. Eini munurinn á máli hennar og mínu er að í hennar tilfelli eru til sannanir,“ sagði hún meðal annars fyrir rétti.
AP segir að í kærunni séu talin upp 10 lögbrot, þar á meðal að henni hafi verið byrluð ólyfjan sem gerði hana meðvitundarlausa svo hægt væri að nauðga henni eða brjóta gegn henni á annan hátt kynferðislega.
Dominique hefur staðfastlega neitað að brotið kynferðislega á dóttur sinni.