Einkaaðilar sem fjármagna samgönguframkvæmdir búa ekki við jafn hagstæð kjör á lánamarkaði og ríkið. Þeir þurfa líka að gera arðsemiskröfu og þetta þýðir að gjaldtaka af slíkum verkefnum þarf að vera 30-40 prósent hærri en ef ríkið sér sjálft um fjármögnunina. Einnig er mikill kostnaður fólginn í utanumhald með gjaldtökunni sjálfri. Við Íslendingar erum að flýta okkur allt of mikið með upptöku kílómetragjalds og „þetta reddast“ hugarfarið er allt of ríkt í okkur. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Runolfur 4
„Með fullri virðingu fyrir einkaframtakinu – þú þarft pening til að fjárfesta, þetta er dýr framkvæmd- þú ferð inn á lánamarkaðinn en þú færð allt önnur kjör en ríkissjóður. Síðan þarft þú að skila arði í fyrirtækið þitt, eðlilega, og það þýðir að hinn venjulegi bíleigandi sem ekur þarna um, fólkið þarna fyrir austan sem er að fara þarna reglulega t.d., það þarf að borga kannski 30-40 prósent meira fyrir hverja ferð bara til að dekka þennan aukna fjármagnskostnað og arðsemiskröfu þessa einkaaðila,“ segir Runólfur.
Hann spyr hvort ekki sé í lagi, þar sem þetta sé lífæð samfélagsins og miklir peningar fari í skatta, að ríkið sjálft sjái um þetta og tryggi að kostnaður okkar verði 30-40 prósentum minni en ella við að fara um veginn. „Hvað þýðir það á 20-30 ára líftíma verkefnisins fyrir t.d. íbúa svæðisins. Og svo er það hitt, þegar menn ætla að vera með gjaldtöku alls staðar; kerfin eru rándýr í kringum þessa gjaldtöku. Ef þú ferð í gegnum Vaðlaheiðina þá er kannski 30 prósent af gjaldinu sem þú greiðir bara kostnaður – innheimtukostnaður og utanumhald um kerfið. Það er bara svo mikil sóun, fyrir utan það að ef þú ferð í svona innheimtu þá ber það líka virðisaukaskatt. Það er ekki endalaust hægt að henda einhverjum kostnaði á umferðina og miða þetta við einkabílanotkunina af því að þar sjá menn mestu tækifærin.“
Hann segir að í hina röndina sé alltaf sagt: Já, eigum við ekki að láta þessa útlendinga borga, þeir keyra þarna um? „Það er ekki stóra málið. Þeir borga hvort sem er og munu borga hvort sem er. Þeir eiga bara að borga sanngjarnt gjald eins og við hin. Meira að segja í frumvarpi núna um kílómetragjald þá er gert ráð fyrir því að bílaleigur geti notið ákveðins afsláttar, sem ég skil ekki vegna þess að þeir eiga að geta sett ákveðinn akstur á dag sem verði föst kílómetratala, og það er undir raunakstri meðalbílaleigubíls. Ég veit ekki af hverju þetta er svona. Gefum þessu lengri tíma, aðlögum þetta, vinnum þetta betur, gerum þetta þannig að allir séu sáttir, kynnum þetta – ekki svona: Þetta reddast.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.