Óvíst er hversu alvarleg meiðsli Ayden Heaven varnarmanns Manchester United eru, hann hafði spilað vel gegn Leicester í gær þegar hann meiddist.
Heaven sem er 18 ára gamall var borinn af velli en hann veit ekki alveg hvað amar að sér.
Heaven var keyptur til United í janúar frá Arsenal og vegna meiðsla hefur hann fengið mikið að spila undanfarna daga.
„Við verðum að meta stöðuna í vikunni, hann er ungur drengur og hann getur ekki alveg útskýrt hvar hann finnur til. Það er erfitt að vita eitthvað núna,“ sagði Ruben Amorim stjóri liðsins.
„Hann er rólegri núna, við verðum að meta stöðuna í vikunni. Hann er að standa sig vel og það væri leiðinlegt ef hann yrði lengri frá.“
Heaven er miðvörður sem hefur vakið athygli fyrir að vera rólegur á boltann en hann er stór og stæðilegur leikmaður.