Eyjan Kanarí, eða Gran Canaria, er einn vinsælasti áfangastaður sólsveltra Íslendinga. En það er ekki bara sól og gleði á eyjunni, þar eiga sér stað glæpir eins og annars staðar. Jafnvel óhugnanlegri glæpir en við erum vön hér á eldgömlu Ísafold.
DV greindi í gær frá óhuganlegum tíðindum frá eyjunni fögru. Konu og 19 ára syni hennar var rænt í bænum El Salobre, sem er ekki ýkja langt frá ensku ströndinni og Maspalomas þar sem íslenskir ferðamenn halda sig gjarnan.
Samkvæmt Canarian Weekly var mæðgininum rænt af málaliðum í vikunni, en talið er að málið tengist deilum tveggja glæpahópa sem leggja stund á fíkniefnasmygl. Málaliðarnir hafi ætlað sér að ná höggi á tilteknum manni og því rænt konu hans og syni.
Lögreglan á Kanarí greindi svo frá því í dag að lögregla hefði haft uppi á mæðginunum og þökk sé þrýstingi sem glæpahópurinn var beittur eru mæðginin nú laus og óhull. Rannsókn málsins heldur þó áfram.
Fjölskyldan býr í rólegu og vel megandi hverfi, en Canarian Weekly kallar heimili þeirra lúxuseign. Málið hefur vakið mikinn óhug meðal íbúa á svæðinu.