Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segir að enfdurhæfing Bukayo Saka gangi vel og vonast hann eftir að fá hann aftur á völlinn sem fyrst.
Saka, sem er algjör lykilmaður fyrir Arsenal, meiddist aftan á læri í desember, þurfti að fara í aðgerð og hefur verið frá síðan.
„Hann nálgast. Hann er að stíga upp og það gengur mjög vel í hans endurhæfingu,“ segir Arteta og enn fremur að hann vonist eftir að Saka verði mættur aftur innan nokkurra vikna.
„Við þurfum að sjá til hvernær við hendum honum inn á aftur og þá hvernig það gengur,“ segir Spánverjinn enn fremur.
Arsenal er svo gott sem úr leik í titilbaráttunni á Englandi en er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu, þar sem liðið mætir Real Madrid í byrjun næsta mánaðar.
Ljóst er að allt kapp verður lagt á að hafa Saka kláran í þá leiki. Fyrri leikurinn er í London 8. apríl og seinni leikurinn í Madríd átta dögum síðar.