Ekkert lát virðist vera á netsvindli þar sem óprúttnir aðilar þykjast vera íslensk fyrirtæki til að svíkja fé út úr fólki og því miður er Pósturinn eitt þeirra fyrirtækja sem glæpamennirnir reyna að nýta sér. Hver sem er getur lent í því að ganga í gildruna, enda eru þrjótarnir alltaf að verða kræfari og meira sannfærandi.
Viðskiptavinir Póstsins hafa ekki farið varhluta af tilraunum svikahrappa til að ná af þeim fé síðustu árin. Einna helst er verið að senda fölsuð skilaboð í tölvupósti eða smáskilaboðum og viðtakanda sagt að hann eigi von á sendingu sem ekki hafi verið hægt að afhenda. Það sé þó einfalt að leysa úr málinu ef viðtakandi smelli á meðfylgjandi hlekk til að ganga frá greiðslu eða gefa upp viðkvæmar persónu- og greiðsluupplýsingar.
Svara mörgum fyrirspurnum um netsvindl á degi hverjum
Fanney B. Pétursdóttir, þjónustustjóri hjá Póstinum, segir marga viðskiptavini hafa samband við þjónustuver Póstsins á degi hverjum vegna falsaðra skilaboða sem þeim hafi borist.
„Þessir svikapóstar og -skilaboð eru alltaf í gangi því við svörum fyrirspurnum frá viðskiptavinum okkar vegna slíkra skilaboða daglega. Svo koma greinilega toppar í þeim og þá geta símtölin og skriflegar fyrirspurnir til okkar numið hundruðum á hverjum einasta degi.“
Hún segir starfsfólk Póstsins hafa fullan skilning á því að fólk sé ringlað og jafnvel hrætt, enda hafi margar sögur borist af því til dæmis í fjölmiðlum hversu umfangsmikið svona netsvindl getur verið og fólk jafnvel tapað háum fjárhæðum. „Við í þjónustuverinu erum orðin býsna lunkin í að þekkja þetta svindl. Auðvitað vitum við líka hvernig vinnubrögð Póstsins eru varðandi tilkynningar, sendingar og svo framvegis og þau eru ekkert í líkingu við það sem kemur frá þessum netþrjótum. En við skiljum hins vegar vel að viðskiptavinir okkar vilji athuga málið og átti sig ekki endilega á því undir eins að þetta sé svindl, sérstaklega af því að glæpamennirnir sem stunda þetta eru sérfræðingar í þessu og eru alltaf að verða kræfari og meira sannfærandi.“
En hvað er hægt til að gera til að verjast netglæpamönnum sem reyna að svindla á viðskiptavinum Póstsins?
„Best er að skrá sig á Mínar síður á heimasíðu okkar, posturinn.is, eða í Póst-appið,“ segir Fanney. „Þar geta viðskiptavinir séð yfirlit yfir þær sendingar sem eru á leiðinni eða gengið úr skugga um að það sé engin sending væntanleg og borið saman sendingarnúmer.“
Beðin um að nefna dæmi um slíkt svindl stendur ekki á svari hjá Fanneyju. „Algengt er að viðskiptavinur fái skilaboð sem send eru í nafni Póstsins um að reynt hafi verið að afhenda sendingu til hans án árangurs. Hann þurfi því að smella á meðfylgjandi hlekk svo hægt sé að klára málið. Þess er líka krafist að viðskiptavinurinn bregðist strax við, gangi frá greiðslu eða staðfesti upplýsingar. Mörgum bregður og geta því auðveldlega gengið í gildruna í hálfgerðu óðagoti. Glæpamennirnir reyna nefnilega að spila inn á ótta og snögg viðbrögð svo fólk grípi hugsunarlaust til aðgerða og falli fyrir svindlinu. Þess vegna borgar sig að staldra við og skoða skilaboðin vandlega því það er svo margt sem gefur strax til kynna að þetta sé svindl.“
Skoðaðu netfang sendanda vel – chipslepesz7@hotmail.com er til dæmis netfang sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum. Stundum líkjast netföngin þó netföngum frá viðkomandi fyrirtæki en eru örlítið frábrugðin, oft til dæmis með tölustöfum inni í miðju netfangi eða vefslóð, eins og nýlegt dæmi sýnir; https://postaui.top/is.
Skoða málfar og orðalag. Mörg svikaskilaboð innihalda stafsetningar- og/eða málfarsvillur sem gefa til kynna að um svik sé að ræða. Dæmi um orðalag í svikapósti sem viðskiptavini okkar barst nýlega: „Pakkinn þinn er kominn á vöruhús okkar á staðnum en hefur ekki verið afhentur vegna rangs sendingarheimilis eða ófullnægjandi upplýsinga.“ Svo er hlekkur sem viðskiptavinur er beðinn um að smella á og segir í skilaboðunum: „Svaraðu Y og opnaðu SMS-virkjunartengilinn aftur eða afritaðu tengilinn og opnaðu hann í vafra.“
Skráðu þig inn á Mínar síður á posturinn.is eða í Póst-appið til að skoða yfirlit yfir sendingar.
Ekki smella á neina hlekki eða opna viðhengi í auglýsingum, skilaboðum eða tölvupóstum þar sem uppruninn er óljós.
Ekki gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við kreditkortanúmer, kennitölu, símanúmer og fleira.