Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lagt fyrir Kópavogsbæ að taka beiðni fyrirtækis sem byggði húss í Urðarhvarfi um lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsinu til efnislegrar meðferðar. Beiðnin var fyrst lögð fram fyrir rétt tæpum þremur árum en bærinn hefur alla tíð neitað að taka hana til endanlegrar afgreiðslu.
Um er að ræða fyrirtækið Akralind ehf sem seldi eignina til fyrirtækisins DCP ehf. í maí 2022. Samkvæmt kaupsamningi átti Akralind að láta framkvæma lokaúttekt á fasteigninni í síðasta lagi 1. desember 2022. Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 30. maí 2022 óskaði Akralind fyrst eftir lokaúttektinni. Segir í úrskurðinum að Akralind og Kópavogsbæ beri ekki saman um viðbrögð bæjarins við þessu erindi og þau samskipti sem hafi átt sér stað í kjölfarið, en ljóst sé af gögnum málsins að deilt hafi verið um gerð stoðveggjar á lóðinni sem væri forsenda lokaúttektar af hálfu byggingarfulltrúa.
Beiðni Akralindar um lokaúttektina var ítrekuð í nóvember 2022 og að viðurkennt yrði að ekki væri skylt að reisa hinn umdeilda stoðvegg. Byggingarfulltrúi Kópavogs svaraði í janúar 2023 þar sem afstaða hans til lokaúttektar var ítrekuð. Frekari samskipti og fundir áttu sér stað og með tölvupósti í júlí 2023 var óskað eftir formlegri ákvörðun bæjarins um það hvort Akralind væri heimilt að ganga frá lóðinni og að fá lokaúttekt. Var erindinu svarað sama dag þar sem vísað var til þess að umræddan stoðvegg vantaði og að það hamlaði því að öryggis- og lokaúttekt gæti farið fram. Var Akralind jafnframt upplýst um fyrirhugað samkomulag bæjarins við kaupanda fasteignarinnar, DCP.
Akralind ítrekaði beiðni um lokaúttekt enn á ný í september 2023. Í svari bæjarins var ítrekuð sú afstaða að málinu væri lokið með samkomulagi við kaupanda fasteignarinnar. Akralind svaraði sama dag og benti á að sem afsalshafi og samkvæmt kaupsamningi við kaupanda væri það skylda fyrirtækisins að fá lokaúttekt. Var erindið enn einu sinni ítrekað. Frekari ítrekanir og samskipti áttu sér stað þar til Akralind leitaði til umboðsmanns Alþingis 28. október 2024 með kvörtun vegna tafa Kópavogsbæjar á afgreiðslu beiðnarinnar.
Í desember 2024 barst lögmanni Akralindar tölvupóstur frá bæjarlögmanni Kópavogs. Þar kom fram að samkvæmt kaupsamningi Akralindar og kaupanda eignarinnar, DCP, hafi verið kveðið á um þann rétt kaupanda að klára lokaúttekt á kostnað seljanda, hafi seljandi ekki gert það fyrir 1. desember 2022. Kópavogsbær hafi komist að samkomulagi við DCP um frágang stoðveggjar sem hafi verið forsenda þess að lokaúttekt væri gefin út. Vildi bæjarlögmaður meina að Akralind ætti enga lögvarða hagsmuni af málinu og engar kröfur á Kópavogsbæ.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vildi Akralind hins vegar meina að það hefði svo sannarlega lögvarðra hagsmuna að gæta í málinu og að beiðni þess um lokaúttekt ætti að hljóta efnislega meðferð hjá bænum. Fyrirtækið sé verktaki og hafi byggt umrætt hús og þrátt fyrir að hafa selt það í maí 2022 sé það enn afsalshafi. Samkvæmt lögum beri það enn ábyrgð á byggingunni þar til lokaúttekt hafi farið fram. Samningur bæjarins við kaupendurna breyti engu um það.
Kópavogsbær vildi hins vegar meina að engin kæranleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Svar bæjarlögmanns til Akralindar hafi aðeins falið í sér lögfræðilegt álit en ekki frávísun eða synjun á erindi fyrirtækisins. Bærinn stóð enn fremur fast á því að Akralind ætti ekki lögvarðra hagsmuna að gæta í málinu og vísaði þá til samkomulags bæjarins við kaupandann, DCP. Þar með væri samkomulag um lokaúttekt við DCP sem hefði samið við Akralind um að það sæi um að reisa stoðvegginn, sem bærinn gerði kröfu um.
Því mótmælti Akralind í viðbótarathugsemdum. Samningur þess og DCP hafi ekki falið þetta í sér. Ítrekað voru einnig þau sjónarmið að samkvæmt lögum eigi skýrt að koma fram í kaupsamningi að nýr eigandi taki alfarið við samningi við byggingarstjóra. Það hafi ekki verið gert við kaupin og því beri Akralind enn ábyrgð á byggingunni. Fyrirtækið andmælti því einnig að svar bæjarlögmanns til þess hefði ekki falið í sér endanlega afgreiðslu af hálfu Kópavogsbæjar.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að tekið sé undir með bænum um innihald svars bæjarlögmanns til Akralindar. Af orðalagi svarsins verði ekki ráðið að um sé að ræða lokaákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga enda sé það hlutverk byggingarfulltrúa að taka endanlega ákvörðun um lokaúttekt mannvirkis.
Nefndin segir ljóst að beiðni Akralindar um lokaúttekt frá því í júlí 2023 hafi enn ekki verið svarað með þeim hætti að það teljist til lokaákvörðunar í skilningi stjórnsýslulaga. Því sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi dregist úr hófi. Þar með sé það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að taka erindi Akralindar til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar og leggur nefndin það fyrir byggingarfulltrúann að gera þetta.