Sendiráði Íslands í Moskvu var lokað 1. ágúst árið 2023. Á sama tíma óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því að Rússar kölluðu sinn sendiherra til baka frá Reykjavík.
Var Ísland fyrsta ríkið til að stíga þetta skref eftir innrás Rússa inn í Úkraínu í febrúar árið 2022. En ákvörðunin var tekin í júní árið 2023. Að sögn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur vegna þess að starfsemi sendiskrifstofu í Moskvu samræmdist ekki forgangsröðun í íslenskri utanríkisþjónustu á þessum tímapunkti.
Samskipti við Rússland væru í lágmarki, viðskiptalega menningarlega og stjórnmálalega. Þegar ástandið myndi lagast væri eðlilegt að endurvekja hin diplómatísku samskipti. Þangað til myndi utanríkisráðuneytið hafa fyrirsvar Íslands gagnvart Rússlandi.
Nú hefur hins vegar önnur saga verið sögð í breska blaðinu The Express sem gæti varpað ljósi á þessi skyndilegu rof í diplómatískum samskiptum á milli Íslands og Rússlands. Það er að Rússar hafi beinlínis áreitt starfsfólk íslenska sendiráðsins, brotist inn hjá því og ógnað.
Sendiherra Íslands í Moskvu var Árni Þór Sigurðsson en auk þess störfuðu fimm aðrir starfsmenn í sendiráðinu.
Í fréttinni, sem birtist á miðvikudag, er fjallað um stirðleika í samskiptum breskra og rússneskra diplómata. Það er að Rússar hafi kerfisbundið áreitt breska diplómata og fjölskyldur þeirra í Moskvu. Hafi rússneski sendiherrann í London verið kallaður á teppið vegna þessa og látinn vita að Bretar myndu ekki sætta sig við þessa framkomu.
En í fréttinni kemur einnig fram að breskir diplómatar hafi ekki verið einu fórnarlamb Rússa. Sagt er að Íslendingar hafi beinlínis lokað sínu sendiráði eftir að Rússar hafi áreitt starsfólkið og ógnað því.
Segir að kerfisbundið áreiti af hálfu rússnesku leyniþjónustunnar hafi staðið yfir lengi gagnvart íslensku starfsfólki sendiráðsins í Moskvu.
Meðal annars er greint frá því að brotist hafi verið inn á heimili fólks á daginn. Þegar það kom heim til sín voru gluggar opnir um miðjan vetur og sígarettubrunaför á áberandi stöðum.
Einnig er greint frá því að íslensk kona, sem er grænmetisæta, hafi opnað ísskápinn sinn og fundið þar steik í einni hillunni.
Að sögn David Dunn, sérfræðings í alþjóðlegum samskiptum hjá Birmingham háskóla, er tilgangurinn með svona aðgerðum að skapa ótta. Að láta starfsfólk sendiráðsins vita að Rússar hafa aðgang að heimilum þeirra og geta farið þangað inn hvenær sem þeir vilja. Tilgangurinn sé beinlínis að fá óvinveitt ríki til þess að loka sendiráðum sínum eða fækka í þeim.
DV leitaði til utanríkisráðuneytisins til að spyrjast fyrir um hvort íslenskt starfsfólk sendiráðsins í Moskvu hefði orðið fyrir áreiti eins og lýst er í fréttinni.
„Utanríkisráðuneytið tjáir sig ekki um efni umræddrar fréttar,“ segir í svari ráðuneytisins.