„Fjárhættuspilarekstur Háskóla Íslands sætir vaxandi gagnrýni og er nú til umræðu í yfirstandandi rektorskosningum. Í svörum frambjóðenda við spurningu Samtaka áhugafólks um spilafíkn kemur fram mikil andstaða við þennan rekstur og lýsa sumir frambjóðenda því afdráttarlaust yfir að þeir vilji að rekstrinum verði hætt. Þeir frambjóðenda sem eru ekki jafn afdráttarlausir eru engu að síður gagnrýnir á spilakassareksturinn,” segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður samtakanna, í tilkynningunni.
Sjá einnig: Ögmundur sýnir hvernig Háskóli Íslands hafði fé af sjúkum manni – „1.060.000 kr. horfnar“
Frambjóðendur voru spurðir að því hvort þeir vildu að háskólinn hætti rekstri spilakassa og eru svörin birt hér að neðan.
Björn Þorsteinsson:
„Ég vil að HÍ hætti rekstri spilakassa sem fyrst. Fjárveitingarvaldið þarf þó að koma til móts við okkur en ég er bjartsýnn á að hægt verði að losa HÍ úr þessu óheilbrigða sambandi við starfsemi sem verður varla kallað annað en siðlaus. Jafnframt mun ég beita mér fyrir því að HÍ leggist á eitt með stjórnvöldum í baráttunni gegn því alvarlega og vaxandi samfélagsvandamáli sem spilafíkn er.“
Ingibjörg Gunnarsdóttir:
„Það er ómögulegt að svara þessum spurningum játandi eða neitandi án útskýringa og umræðu. Ég vísa til greinargerðar starfshóps um álitamál tengd tekjuöflun HHÍ sem ég leiddi árið 2021. Verði ég rektor mun málið verða á dagskrá, enda nauðsynlegt að finna góða lausn til framtíðar.“
Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir:
„Ég tel brýnt að vinna með stjórnvöldum að langtímaáætlun um að fjármögnun til reksturs Háskóla Íslands verði með þeim hætti að dregið verði stórlega úr vægi spilakassa sem grundvallar uppbyggingar húsnæðis. Óskastaðan væri sú að HÍ þyrfti ekki að standa að rekstri spilakassa. Þangað til þarf stöðuga umræðu um með hvaða hætti staðið er að rekstrinum, að setja fjármagn í rannsóknir á spilafíkn og forvarnir, s.s. innleiðingu á spilakortum sem nýtast einstaklingum til að stýra og hamla eigin neyslu. Í nýlegri skýrslu frá 2023 komu fram þau sjónarmið rekstraraðila sem nýta happdrættisarð til almannaheilla að það þurfi að sporna við erlendu netspili en vísbendingar eru um að Íslendingar eyði allt að 20 milljörðum árlega í erlend netspil sem hér eru ólöglega aðgengileg. Erlendu fyrirtækin hafa því íslenskan almenning að féþúfu og nýta sér þá staðreynd að sumir ánetjast og þjást af spilafíkn. Ljóst er að brotalamir eru á lagalegri umgjörð happdrætta, ekki síst netspila, og stórefla þarf forvarnir og inngrip gegn spilafíkn. Í nýlegri umsögn Háskóla Íslands um frumvarp Flokks fólksins þar sem lagt er til að spilakassar verði bannaðir er bent á hættuna á því að starfsemin færist undir yfirborðið og verði þá enn erfiðara að ná til og aðstoða þau sem þjást af spilafíkn.“
Magnús Karl Magnússon:
„Ég tel það ekki verjandi að Háskóli Íslands fjármagni sig með rekstri spilakassa sem tengjast hættu á spilafíkn. Það þarf því að finna aðrar leiðir, í samvinnu við stjórnvöld, til fjármögnunar skólans.“
Silja Bára R. Ómarsdóttir:
„Ég myndi vilja að Happdrætti Háskóla Íslands hætti að reka spilakassa en það er ekki ákvörðun einnar manneskju. Staðan er sú að samkvæmt lögum um HHÍ nr. 13/1973 skal veita ágóðanum af því til að reisa byggingar á vegum HÍ og halda þeim við. HÍ hefur þess vegna ekki aðgang að öðru fjármagni í það verkefni. Þessu myndi ég vilja breyta og þótt það sé stjórnvalda að breyta lögum og tryggja fjármögnun með öðrum hætti, þá mun ég sem rektor þrýsta á samtal um slíkar breytingar.“