Konan sem um ræðir, hin 24 ára Samantha Strable, birti myndband af sér þar sem hún tók skelkaðan vamba frá móður sinni og hljóp í burtu með hann. Vambar (e. Wombats) eru stuttfætt pokadýr sem finnast eingöngu í Ástralíu.
Mikil reiði blossaði upp á samfélagsmiðlum enda virtist Samantha skemmta sér konunglega þegar hún tók dýrið úr öryggi móður sinnar.
Málið vakti mikið umtal í Ástralíu og hefur Samönthu núna verið vísað úr landi, að því er fram kemur í frétt Daily Mail Australia.
„Það hefur aldrei verið betra að vera lítill vambi í Ástralíu en í dag,“ sagði ráðherra innflytjendamála, Tony Burke, í samtali við miðilinn. Anthony Albanese, forsætisráðherra landsins, hafði áður tjáð sig um málið og var hann ómyrkur í máli.
„Reyndu að gera þetta við krókódíl og sjáðu hvort þú komist upp með það,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Samönthu.
View this post on Instagram