fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Eyjan

Mennta- og barnamálaráðherra sögð grafa undan dómsvaldinu – „Það er ekki aðeins óábyrgt heldur beinlínis hættulegt“

Eyjan
Fimmtudaginn 13. mars 2025 18:30

Ásthildur Lóa og eiginmaður hennar, Hafþór Ólafsson, töpuðu dómsmáli gegn íslenska ríkinu í fyrradag. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem og fyrrum þingmaður flokksins gagnrýna Ásthildi Lóu Þórsdóttur mennta- og barnamálaráðherra harðlega fyrir að segja að hún og maður hennar séu hætt að búast við réttlæti hjá íslenskum dómstólum. Vilja Sjálfstæðismennirnir meina að með þessum orðum grafi ráðherrann undan trausti á íslensku dómskerfi sem sé háalvarlegt mál þegar um sé að ræða manneskju í hennar stöðu.

Ásthildur Lóa viðhafði þessi ummæli á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Ásthildur Lóa: „Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum”

Með orðunum var ráðherrann að lýsa yfir óánægju sinni með niðurstöðu dómsmáls gegn íslenska ríkinu sem hún og maður hennar töpuðu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Snerist málið um nauðungarsölu á húsi þeirra sem þau eru raunar búin að kaupa aftur en vildu hjónin fá hluta af því fé sem salan skilaði og byggðu það á fyrningu vaxta og því að framkvæmd sölunnar hefði verið ólögmæt. Ríkið var hins vegar sýknað á þeim grundvelli að krafa hjónanna væri fyrnd.

Ásthildur Lóa tapaði vegna fyrningar

Grafa undan

Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar á Facebook um orðfæri ráðherrans í garð íslenskra dómstóla:

„Það er auðvitað ekkert athugavert við það að fólk sé ósátt við einstaka dómsúrlausnir og telji þær rangar. Við slíkar aðstæður verður hins vegar að gera þá kröfu að gagnrýni á dómsniðurstöðu byggi á einhverjum efnislegum og lagalegum grundvelli þar sem á það er bent að samkvæmt þeim lögum, sem dómurum bar að fylgja við úrlausn málsins, hefði niðurstaðan átt að vera önnur en hún varð. Líklega er ekki ósanngjarnt að halda því fram að sú krafa sé enn ríkari þegar ráðamenn þjóðarinnar eiga í hlut.“

Sigurður Kári segir hins vegar þá leið sem Ásthildur Lóa fór í gagnrýni sinni á dómsniðurstöðuna vera óboðlega:

„Það er ekki á hverjum degi sem handhafi framkvæmda- og löggjafarvalds lýsir með svo afdráttarlausum hætti vantrausti á handhafa dómsvaldsins, og í raun á dómstóla landsins í heild sinni. Ég minnist þess a.m.k. ekki að það hafi ráðherra gert með viðlíka hætti og Ásthildur Lóa gerði í gær án þess að slík yfirlýsing byggi á einhverjum lagalegum- eða efnislegum forsendum, öðrum en mögulega þeim að dómarar séu með dómsúrlausnum sínum að ganga einhverra erinda, eins og mér hefur fundist mega lesa út úr yfirlýsingum ráðherrans.“

Hann segir að lokum að fróðlegt verði að vita hvort Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra taki undir þessi ummæli samráðherra síns og sömuleiðis verði fróðlegt að sjá hvernig Ásthildur Lóa ætli sér að koma á réttlæti í íslensku dómskerfi.

Óásættanlegt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum dómsmálaráðherra gengur enn lengra á sinni Facebook-síðu og segir óásættanlegt að ráðherra tali með slíkum hætti um dómstóla landsins:

„Það er ekki aðeins óábyrgt heldur beinlínis hættulegt. Þessi ummæli grafa undan trausti almennings á réttarkerfinu og sýna lítilsvirðingu fyrir sjálfstæði dómsvaldsins – einu af þremur meginstoðum lýðræðisins. Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjálfir hafa misst trú á réttlæti íslenskra dómstóla, hvernig eigum við þá að ætlast til þess að borgararnir geri það?“

Áslaug Arna segir eðlilegt að gagnrýna niðurstöður dómstóla með rökum en gagnrýni Ásthildar Lóu sé ekki eðlileg og í raun annarleg:

„En að ráðherra, sem sjálfur er hluti af framkvæmdavaldinu, ráðist á dómsvaldið með svona alhæfingum er aftur á móti algjörlega óásættanlegt. Það dregur úr trúverðugleika réttarkerfisins og vegur að grunnstoðum lýðræðisins. Annaðhvort er þetta alvarlegur dómgreindarbrestur eða meðvituð atlaga að sjálfstæði dómsvaldsins. Hvorugt er ásættanlegt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ósáttur við taktík kosningateymis Höllu í formannskjöri – „Aldur á ekki að vera mælikvarði á getu fólks til að leiða stéttarfélag“

Ósáttur við taktík kosningateymis Höllu í formannskjöri – „Aldur á ekki að vera mælikvarði á getu fólks til að leiða stéttarfélag“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Fólkið fór ekki, heldur flokkurinn

Sigmundur Ernir skrifar: Fólkið fór ekki, heldur flokkurinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þórdís Kolbrún: Stefnubreyting Bandaríkjaforseta útpæld – ekki bara ætluð til heimabrúks í innanlandspólitík vestan hafs

Þórdís Kolbrún: Stefnubreyting Bandaríkjaforseta útpæld – ekki bara ætluð til heimabrúks í innanlandspólitík vestan hafs