Pipar\TBWA var valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð á ráðstefnu ÍMARK, sem haldin var í Háskólabíó á dögunum. ÍMARK eru samtök íslensks markaðsfólks. Þetta eru eftirsóttustu verðlaun auglýsingageirans en sem fyrr eru það markaðsstjórar íslenskra fyrirtækja sem kjósa.
,,Við erum afar stolt og ánægð með að hljóta þessi stóru verðlaun annað árið í röð,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA.
Verðlaunin fyrir auglýsingastofu ársins eru veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, hugmyndaauðgi, fagleg vinnubrögð og áherslu á árangur viðskiptavina á nýliðnu ári og fleira.
Pipar\TBWA vann einnig tvo lúðra fyrir herferðina ,,Ekki taka skjáhættuna“ sem þau unnu í samstarfi við Sjóvá, Lúðrana fengu þau í flokkunum PR og Veggspjöld og skilti. Þá vann stofan einnig silfur í flokknum Almannaheillaauglýsingar – kvikmynduð auglýsing fyrir ,,Afsakið hlé“ sem stofan vann með UN Women.
„Pipar\TBWA hefur verið í fremstu röð á Íslandi og nýtur þess að vera í samstarfi við eina stærstu keðju auglýsingastofa í heiminum, TBWA,“ segir Guðmundur. „Hugmyndaauðgi hefur verið helsta söluvara okkar síðustu ár en við erum það lánsöm að vera með góðan hóp fólks hér á stofunni með mikla og góða reynslu. Í þessum bransa er fólkið einmitt aðalatriðið, því hugmyndir og ráðgjöf eru það sem þetta gengur aðallega út á,“ segir Guðmundur. Í fyrra hafi stofan síðan eflt samskipta- og samfélagsmiðla þjónustu sína sem og PR þjónustu við viðskiptavini. Þá er árangursmæling stór hluti af þjónustu Pipar\TBWA og
„Við erum árangursdrifin, setjum okkur stefnu og mælum hvort við náum markmiðum okkar,“ segir Guðmundur. ,,Hugmyndafólk stofunnar sækir sér m.a. reglulega þekkingu og reynslu erlendis og vinnur með kollegum innan TBWA keðjunnar. Hugmyndastjórar okkar hafa til dæmis verið að dæma í keppnum erlendis. Þessi tenging skilar sér öll hingað heim í betri vinnu og ferskari hugmyndum.“
Pipar\TBWA hefur þá sérstöðu meðal auglýsingastofa á Íslandi að hafa ráðist í útrás og rekur stofur í Danmörku, Noregi og Finnlandi. Þá er stafræna markaðsstofan Ceedr dótturfélag Pipar\TBWA.