„Í 109 ára farsælli sögu sinni hlaut Framsóknarflokkurinn sína verstu kosningu hinn 30. nóvember síðastliðinn,“ segir Guðni í byrjun greinar sinnar og líkir stöðunni við stöðu Samfylkingarinnar árið 2016.
„Framsóknarflokkurinn er byggður á grundvallarstefnuskrá sinni og í flokknum eru tólf þúsund félagsmenn sem á hana trúa af einlægni. Ætla má að mörgum þeirra líði ekki vel þessa dagana. Ég er einn þeirra,“ segir Guðni og heldur áfram:
„Ekkert markvert hefur heyrst frá formanni flokksins um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í Framsóknarflokknum. Hvorki meira né minna en átta þingmenn féllu, þar af þrír öflugir ráðherrar, varaformaður og ritari flokksins. Framsóknarflokkurinn náði aðeins fimm fulltrúum inn á þing. Formaður flokksins og annar þingmaður til á landsbyggðinni náðu kjöri á sjö þúsund atkvæðum af höfuðborgarsvæðinu sem féllu dauð niður þar. Kosningatapið einkenndi landið allt,“ segir Guðni meðal annars og rifjar upp eyðimerkurgöngu Samfylkingarinnar árin 2013, 2016, 2017 og 2021, eða allt þar til Kristrún Frostadóttir tók við flokknum og reif fylgið upp.
„Margir spyrja sig hvort Framsóknarflokkurinn sé að hefja álíka gönguför og ekki síður hvernig hún endi. Fyrir farsæl sögulok er nauðsynlegt að gjöful vin finnist í eyðimörkinni. Að því vatnsbóli þarf flokkurinn allur að leita,“ segir Guðni sem telur að Framsóknarflokkurinn sé í þrengri stöðu en Samfylkingin var vegna harðrar samkeppni annarra flokka.
„Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn búa við klofningsflokkana Viðreisn og Miðflokkinn, sem vissulega torveldar báðum endurreisn sína. Af átta þingmönnum Miðflokksins eru fjórir, jafnvel fjórir og hálfur, fyrrverandi framsóknarmenn. Flokki fólksins tókst að auki að hirða ákveðinn kjarna landsbyggðar- og félagshyggjufólks af Framsókn.“
Guðni segir einnig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nýlega haldið glæsilegan landsfund og kosið sér nýja forystu og það megi vænta aukins slagkrafts þaðan.
„Kenningin um að nýir vendir sópi best hefur rækilega sannast hjá Samfylkingunni. Ekki kæmi á óvart að svipað yrði uppi á teningnum hjá Sjálfstæðisflokknum. Hjá báðum flokkunum blása ferskir vindar um salarkynnin,“ segir Guðni sem spyr forystu Framsóknarflokksins, og þá einna helst formanninn, Sigurð Inga.
„Hvað stendur til að gera? Til hvaða ráða skal gripið? Það er nefnilega ekki lengur „bara best að kjósa Framsóknarflokkinn.“ Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir tóku við keflinu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson klauf flokkinn. Þau unnu góðan varnarsigur árið 2017 og glæsta sigra í alþingiskosningum 2021 og sveitarstjórnarkosningum 2022.“
Guðni rifjar upp að eftir þær kosningar sé Framsóknarflokkurinn næststærsti sveitarstjórnarflokkurinn í landinu. Í Reykjavík hafi flokkurinn komist í meirihluta en reyndist vera í „vondum félagsskap“ sem endaði þannig að borgarstjórinn Einar Þorsteinsson, sem tiltölulega var nýtekinn við keflinu, sá sér þann kost vænstan að rjúfa samstarfið.
„Endirinn á þeirri vegferð varð sá að Framsóknarflokkurinn situr ekki einungis í minnihluta heldur þarf hann til viðbótar að kljást við versta borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkur. Óhamingju okkar framsóknarfólks hefur orðið flest að vopni síðustu misserin,“ segir Guðni.
Hann segir einnig að þegar fyrirtæki eða félög fara illa eigi allir haghafar og félagsmenn rétt á skýringum um hvað olli fallinu og hvernig eigi að endurreisa starfsemina.
„Það er beinlínis skylda þín, Sigurður Ingi, sem formaður Framsóknarflokksins að skipa framtíðarnefnd um endurreisn flokksins í góðu samráði og sátt við varaformann og ritara hans,“ segir Guðni og bætir við að tíminn til stefnu sé naumur.
„Hér dugar engin tæpitunga. Þessi nefnd þarf kjarkmikinn forystumann sem gæti óttalaus talað fyrir greinargóðu handriti að þróttmikilli þátttöku Framsóknarflokksins í íslenskum stjórnmálum til langrar framtíðar. Ég þykist vita það kæri formaður að þú stefnir ekki endilega að því að leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum en ég er líka sannfærður um að þú viljir koma flokknum af líknardeildinni áður en til þeirra verður efnt. Og kannski er tíminn til stefnu naumari en sem nemur þeim árum sem eftir eru af fyrirhuguðum líftíma núverandi valkyrjustjórnar,“ segir Guðni sem endar grein sína á þessum orðum:
„Þess vegna er okkur ekki til setunnar boðið. Seinna gæti orðið of seint. Það er að minnsta kosti lágmark að tólf þúsund félagar í Framsóknarflokknum viti hvort flokkurinn þeirra sé að koma eða fara. Þess vegna skora ég á þríeykið í æðstu forystu Framsóknarflokksins að bretta upp ermar, horfast í augu við okkar ískalda veruleika, taka til máls og grípa til aðgerða.“