Þetta eru kröfurnar sem kínverska fyrirtækið Shandong Shuntian Chemical Group gerir til starfsfólks. New York Times skýrir frá þessu og segir að þetta komi fram í minnisblaði sem stjórnendur fyrirtækisins sendu starfsfólki.
„Ef þú gengur ekki í hjónaband og stofnar fjölskyldu fyrir lok þriðja ársfjórðungs, þá munum við binda enda á ráðningarsamning þinn,“ segir í minnisblaðinu.
Einhleypt starfsfólk hefur því frest þar til í lok september til að finna hina einu sönnu ást ef það vill ekki standa uppi atvinnulaust.
Ekki er svo langt síðan að kínversk stjórnvöld heimiluðu hjónum og pörum aðeins að eignast eitt barn. En sú tíð er nú að baki vegna fólksfækkunar í landinu. Kommúnistaflokkurinn, sem stýrir landinu harðri hendi, reynir nú að fá landsmenn til að ganga í hjónaband og eignast börn.
Embættismenn hafa meðal annars heimsótt konur á heimili þeirra til að reyna að hafa áhrif á þær og fá þær til að eignast börn.
6,1 milljón kínverskra para gekk í hjónaband á síðasta ári.