Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, opinberaði í gær leikmannahóp sinn fyrir tvo umspilsleiki gegn Kósóvó í Þjóðdadeildinni 20. og 23. mars. Hann er brattur fyrir verkefninu.
Um er að ræða fyrsta hópinn sem Arnar velur frá því hann tók við, en leikirnir eru upp á að halda sæti okkar í B-deild Þjóðadeildarinnar. Ísland spilar heimaleik sinn í einvíginu á Spáni en þykir sigurstranglegri aðilinn. Strákarnir okkar eru í 70. sæti heimslistans en Kósóvó er númer 99.
Arnar Gunnlaugsson
„Leikirnir leggjast mjög vel í mig. Mér finnst frábært að þetta séu mótsleikir sem skipta máli en ekki æfingaleikir. Kósóvó er með léttleikandi lið, með sterkan og reynslumikinn þjálfara,“ sagði Arnar við 433.is í gær.
Hann leggur þó meiri áherslu á sterka frammistöðu en úrslit í þessu verkefni.
„Þetta skiptir máli en ég er að leitast eftir frammistöðum. Ég er að leitast eftir ljósglætu sem við getum notað til að horfa fram veginn. Á þessum tímapunkti, að vinna einhverja heppnissigra og fá ekkert út úr því, mér hugnast það illa.“
Ítarlegt viðtal við Arnar er í spilaranum.