Ungfrú Ísland 2025, undankeppni Miss Universe 2025, tilkynnir með stolti dómnefnd keppninnar í ár. Um úrvalslið er að ræða, enda skipa dómnefndina í ár einar glæsilegustu konur landsins sem hafa á afrekaskrá sinni sigra í menningu, listum, íþróttum og atvinnulífi. Hin alþjóðlega Miss Universe keppni hefur nýlega breytt reglum töluvert hvað varðar þátttakendur og hafa til að mynda aldurstakmörk verið fjarlægð. Hin íslenska undankeppni, Ungfrú Ísland, hefur svo sannarlega notið góðs af því, og er þátttakendahópurinn fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.
Sjá einnig: Þetta eru keppendur Ungfrú Ísland 2025
Hið sama má segja um dómnefndina, en einar glæsilegustu konur landsins heiðra keppnina með aðkomu sinni.
Ragnheiður Ragnarsdóttir, leikkona og Ólympíufari er hin íslenska skjaldmey sem hefur unnið sigra í bæði sundlauginni og sem leikkona og er þekkt á heimsvísu fyrir sterka framkomu.
Sólrún Diego er einn vinsælasti áhrifavaldur Íslands og þekkt fyrir fræðandi efni í heimilishaldi, afburðahæfileika í eldhúsinu, glæsileika og jákvæða útgeislun. Hún er tveggja barna móðir og eiginkona sem hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist heimilinu og lífsstíl, og sinnir öllu með glæsibrag.
Brynja Dan er athafnakona og frumkvöðull og lætur ekki móta sig af staðalímyndum eða manngerðum hindrunum. Brynja er þekkt fyrir sterka framkomu, smekkvísi og lausnamiðaða hugsun enda öflug kona sem sýnir í verki öðrum konum gott fordæmi.
Elísabet Hulda var kjörin Ungfrú Ísland árið 2020 og sem eitt af sjö systkinum veit hvernig á að skara fram úr fjöldanum og láta ljós sitt skína. Hún er sterkur talsmaður valdeflingar kvenna og mun leggja sitt af mörkum til að sá boðskapur verði til staðar meðal keppenda í Ungfrú Ísland.
Hanna Rún dansari er keppnismanneskja inn að rótum og hefur ekki tölu á öllum titlunum og bikurunum sem hún hefur nælt sér í á ferli sem spannar fjöldamörg ár. Hanna hefur sýnt í eigin lífi og ferli að metnaður og vinna skilar árangri og færir sem dómari slíkar áherslur að dómnefndarborðinu.
Ungfrú Ísland keppnin fer fram í Gamla bíó þann 3. apríl og miðasala er á www.tix.is (https://tix.is/event/19042/ungfru-island-2025). Frekari upplýsingar um Ungfrú Ísland má finna á www.missuniverseiceland.com.