Lori fékk viðurnefnið Dómsdagsmamman en fjallað var um hana og fjölskyldu hennar í Netflix-þáttaröðinni Sins of Our Mother (Syndir móður okkar). Hún var hluti af öfgafullum sértrúarsöfnuði sem klauf sig frá kirkju mormóna og trúði því statt og stöðugt að heimsendir væri í nánd.
Lori var dæmd í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn árið 2023 fyrir að hafa orðið tveimur yngri börnum sínum, Joshua, 7 ára og Tylee Ryan, 16 ára, að bana og tekið þátt í samsæri um að myrða fyrri eiginkonu eiginmanns síns, Tammy Daybell. Eiginmaður Lori, Chad Daybell, var dæmdur til dauða vegna morðanna.
Joshua og Tylee hurfu á dularfullan hátt í Rexburg í Idaho í september 2019. Þeirra var leitað mánuðum saman en það var ekki fyrr en í júní 2020 sem lögreglan fann líkamsleifar þeirra á afskekktri landareign í eigu Daybell.
Sjá einnig: Dómsdagsmamman dæmd í lífstíðarfangelsi
Lögreglan telur Lori og Chad einnig hafa komið að morðinu á fyrrverandi eiginmanni Lori, Charles Wallow. Hann var skotinn til bana árið 2019. Það var Alex Cox, bróðir Lori, sem tók á sig sök í því máli og bar við sjálfsvörn. Lögreglan telur hins vegar að Lori og jafnvel Chad hafi tengst morðinu. Alex lést af eðlilegum orsökum í desember 2019 og var því aldrei ákærður fyrir morðið.
Sjá einnig: Yfirheyrslumyndbönd af „dómsdagsmorðingjanum“ skelfa fólk
Lori hefur nú veitt fyrsta viðtalið sitt. Hún settist niður með Keith Morrison frá Dateline fyrir NBC.
Hún sagðist saklaus og að fjölmiðlar hafi dregið upp ranga mynd af henni. „Við vitum öll hvernig fjölmiðlar eru,“ sagði hún.
„Þeir ýkja allt og búa til hluti og svona. Ég veit ekki hvernig þetta varð eins og þetta er í dag, mér finnst það alveg ótrúlegt.“
Lori sagðist vera misskilin og sagðist ekki hafa verið viðstödd þegar börnin hennar voru myrt. Hún sagðist vera viss um að sakleysi hennar og Chad myndi sannast fyrr en síðar. „Eftir að ég verð sýknuð þá fer ég kannski í Dancing With the Stars og þú getur komið,“ sagði hún.
Lori hefur verið ákærð fyrir morðið á Charles og hefjast réttarhöld í lok mars. Hún neitar sök og ætlar að verja sig sjálf.
Þrátt fyrir að halda fram sakleysi sínu virðist enginn kaupa það sem hún sagði í viðtalinu. Áhorfendur skrifuðu athugasemdir við myndband NBC á YouTube og sögðu hana verðskulda að verja ævinni í fangelsi.
„Illskan sést í andliti hennar,“ sagði einn netverji.
„Hún lítur eins klikkuð út og hún hljómar,“ sagði annar.
„Djöfullinn með rauðan varalit. Hún myrti saklaus börn og hefur ekki sýnt iðrun,“ sagði einn.