Símon sagði að það væri mikill byrjendabragur á sýningunni og að hann hefði búist við meira af stóra sviði Þjóðleikhússins. Hann sagði að þó Una Torfa, sem fer með aðalhlutverkið, væri frábær tónlistarkona þá „hefur hún ekki leikhæfileika til að standa undir aðalrullu í söngleik á stóra sviðinu.“
Stormur er nýr íslenskur söngleikur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Unu Torfa og var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 6. mars. Verkið fjallar um hóp átta vina, fimm stúlkna og þriggja stráka, sem eru að útskrifast úr menntaskóla og standa á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg.
Ragna Gestsdóttir gaf Stormi glimrandi umsögn og fimm stjörnur í gagnrýni fyrir DV.
Sjá einnig: Stórkostlegur Stormur – Stjarna Unu skín enn skærar
„Þetta er sýning sem á [að] höfða til ungs fólks og fjalla um veruleika þeirra. Þjóðleikhúsið teflir djarft því í aðalhlutverki er ung söngkona án reynslu af leik á stóra sviðinu og í öðrum hlutverkum eru tiltölulega nýútskrifaðir leikarar úr Listaháskólanum. Þessi tilraun er djörf en niðurstaðan því miður nokkuð fyrirsjáanleg – með hóp af byrjendum á leiksviði er byrjendabragur á sýningunni,“ skrifaði Símon í gagnrýni sinni á Vísi.
Símon segir að eitt af vandamálum verksins sé persónusköpunin. Hann segir persónuna Elísabetu vera „aðeins of fullkomna.“
„Og aðrar persónur verksins sífellt að staðfesta ágæti hennar og hæfileika. Í upphafi verksins hefur Elísabet þegar slegið í gegn – í raun er fyrsta vandamálið sem hún stendur frammi fyrir að hún hefur fengið tilboð upp á 1,5 milljónir frá fyrirtæki fyrir að nota lagið í auglýsingu – sem stríðir gegn listrænni sýn hennar.“
Símon segir Helgu og Tomma vera best skrifuðu persónur verksins en „því miður eru aðrar persónur flatar og óeftirminnilegar og í raun bara tákn fyrir ákveðnar týpur, versló týpan, fyndna týpan, karlremban og svo framvegis.“
Símon segir það greinilegt að Stormur sækir innblástur í myndina A Star is Born en það skorti tengingu á milli tónlistarinnar og sýningarinnar.
„Í Stormi fannst mér tengslin á milli texta laganna og atriðanna í sýningunni ekki alltaf vera skýr og tónlistin og dansnúmerin urðu fremur endurtekningasöm eftir því sem leið á,“ segir hann.
„Tónlistin var hins vegar ágætlega flutt. Hljómsveitin þétt og ungu leikararnir margir hverjir góðir söngvarar. En ef ég ætti að horfa á þetta sem söngleik – bera þetta saman við Frost, Gauragang, West Side Story, Vesalingana eða aðra klassík þá finnst mér mikið vanta upp á og efast um að Stormur eigi eftir að verða settur upp af öðrum leikhópum í framtíðinni. Tíminn á þó eftir að leiða það í ljós.“
„Boðskapurinn í Stormi er sá að þú átt að fylgja hjartanu og gera það sem þig langar til. Ef þú gerir það mun allt ganga upp. Þetta er fallegur boðskapur og kannski það sem er mest í anda okkar tíma í sýningunni. En veruleikinn er hins vegar sá að allir geta ekki allt. Það eru ekki allir leikskáld og ekki allir leikarar – þrátt fyrir að langa til þess. Unnur Ösp er hæfileikaríkur leikstjóri en það er mikil áskorun að bæði leikstýra og semja söngleik. Ég held að Stormur hefði getað orðið mun betri sýning ef til dæmis reynslumikið leikskáld hefði komið að handritsgerðinni,“ segir Símon.
„Og þrátt fyrir að Una Torfadóttir sé frábær tónlistarkona þá hefur hún ekki leikhæfileika til að standa undir aðalrullu í söngleik á stóra sviðinu (ásamt því að semja tónlistina og vera höfundur verksins). Senur sem hefðu átt að vera dramatískar og áhrifamiklar – t.d. þegar Helga manar sig upp í að segja henni sannleikann um sig sjálfa eftir hlé eða í lokauppgjörinu á milli þeirra urðu máttlausar. Ástarsagan féll í skuggann af hinum umræddu útgáfutónleikum sem urðu hápunktur sýningarinnar en skiptu kannski ekki höfuðmáli miðað við allt sem gengið hafði á þetta sumar.
Best fannst mér Una Torfa í lok sýningarinnar þegar verkið leystist upp í hreinræktaða tónleika. Þegar hún losnaði við „Elísabetu” sá maður hversu magnaður flytjandi og tónlistarmaður hún er.“
Að lokum deildi Símon niðurstöðu sinni um Storm:
„Reynslulitlir leikarar og tónlist sem passar ekki alltaf nægilega vel við söguna gera Storm að frekar rislitlum söngleik. Maður býst við meiru á stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem meira hefur verið lagt upp úr tilraunum en fagmennsku í vetur.“