Þrír einstaklingar eru lausir úr haldi lögreglu vegna rannsóknar á andláti karlmanns í gærmorgun. Alls voru átta handteknir vegna málsins, en rannsókn beinist að meintri frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi.
Rannsókn málsins er skammt á veg komin og heldur áfram af fullum þunga, eins og segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
„Skömmu fyrir miðnættið á mánudagskvöld barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um að óttast væri um karlmann á sjötugsaldri sem hafði yfirgefið heimili sitt í Þorlákshöfn fyrr um kvöldið. Lögregla hóf þegar eftirgrennslan og beindist grunur lögreglu fljótt að því að vera kynni um frelsissviptingu að ræða. Maðurinn fannst snemma í gærmorgun utan dyra við göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Hann var þungt haldinn og lést skömmu eftir komu á slysadeild.“
Tekin verður ákvörðun síðar í dag um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir hinum handteknu.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en líkt og áður hefur verið greint frá hafa lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk sérsveitar ríkislögreglustjóra einnig komið að henni.
Vegna rannsóknarhagsmuna verða frekari upplýsingar ekki veittar að svo stöddu, segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.
Sjá einnig: Manndrápsmálið: Þekktur ofbeldismaður meðal hinna handteknu – Tálbeituhópar tengjast málinu
Sjá einnig: Manndrápsmálið: Hinn látni var karlmaður á sjötugsaldri – Líkið fannst í Gufunesi