Þetta segir Trausti í samtali við Morgunblaðið í dag. Sjór gekk á land í byrjun mánaðar og varð til dæmis mikið tjón í Sandgerði og þá flæddi sjór og grjót yfir varnargarða í Reykjavík.
Sjá einnig: Guðmundur varar við: Heilt byggðarlag þurrkaðist út á einni nóttu – „Öflugir stormar munu verða tíðari“
Trausti segir í samtali við Morgunblaðið að aukin byggð við strandlengjuna þýði að Íslendingar þurfi að vera viðbúnir meira tjóni af völdum sjávargangs.
„Þótt strandvarnir hafi batnað mjög mikið, sérstaklega í kringum hafnir, hafa fjárfestingar í kringum strandsvæði aukist meira en sjóvarnir. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að það verði meira tjón í framtíðinni vegna sjávargangs, jafnvel þótt veður breyttist ekki neitt. Síðan þegar teknar eru veðurfarsbreytingar inn í myndina líka er staðan enn verri. Umfang tjóns gæti verið margfalt meira ef hvassviðri væri meira og loftþrýstingur lægri,“ segir hann í samtali við blaðið.
Í þeim flóðum sem urðu á dögunum var veður í raun ekki það slæmt og segir hann til dæmis að ef engin byggð hefði verið komin á þessi svæði er óvíst að nokkur hefði tekið eftir tjóni.
„En það er farið með hús og annað alveg ofan í flæðarmál í dag og þá eykst hættan á tjóni sökum sjávargangs,“ segir Trausti sem rifjar einnig upp sjávarflóð sem urðu árið 1991 á sunnan- og vestanverðu landinu og varð mikið tjón af völdum þeirra.