Hopp hefur afhent Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um notandann sem skildi deilibíl fyrirtækisins eftir hálfan ofan í drullupytti við Bakkastjörn á Seltjarnarnesi. Atvikið er harmað.
„Við hér hjá Hopp hörmum þetta atvik sem er óásættanlegt að öllu leyti,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, stjórnarformaður Hopp.
Eins og DV greindi frá í hádeginu fékk lögregla tilkynningu um mannlausan Hopp-bíl í Bakkatjörn, á viðkvæmu fuglasvæði. Nú er búið að draga bílinn upp úr pyttinum og fjarlægja hann.
Sæunn segir að búið sé að afhenda lögreglu upplýsingar um notanda deilibílsins sem skildi svona við hann. Málið sé komið í réttan farveg hjá bæði lögreglu og tryggingafélagi. Einnig hafi verið haft samband við bæjarskrifstofu Seltjarnarnes vegna málsins.
„Það er miður að svona atvik þurfi að gerast þar sem borgarland og þar af friðland sé vanvirt með þessum hætti,“ segir Sæunn að lokum.