fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Sauð upp úr fyrir brottför á Keflavíkurflugvelli – Systkini helltu sér yfir áhöfnina

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 11. mars 2025 11:00

Farþegar voru orðnir mjög þreyttir á ástandinu og vildu losna við fólkið úr fluginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppnám varð í flugvél á Keflavíkurflugvelli vegna konu sem heimtaði að sækja veski sem hún gleymdi í flughöfninni. Laug hún því að í veskinu væri vegabréf og lífsnauðsynleg lyf. Bróðir hennar skipti sér líka af með miklum látum. Gera þurfti öryggisúttekt á öllum farþegum eftir að þau voru farin frá borði.

Greint er frá málinu í miðlinum Twisted Sifter en frásögnin kemur upphaflega frá færslu á samfélagsmiðlum.

Um er að ræða flug frá Keflavík til ónefndrar borgar í Kanada á síðasta ári. Greinir einn farþeginn frá uppnámi sem átti sér stað þegar allir voru sestir og áhöfnin var að gera klárt fyrir brottför.

„Ég var í flugi frá Íslandi til Kanada og nokkrum mínútum fyrir brottför, beinlínis þegar flugfreyjurnar voru að fara yfir öryggisatriðin, stekkur ein stúlka upp úr sætinu sínu,“ segir farþeginn. „Hún truflaði eina flugfreyjuna og sagðist hafa gleymt veskinu sínu á flugvellinum og vegabréfið hennar væri í því. Spurðu hún hvort hún gæti ekki bara farið og náð í það. Hún var að ofanda.“

Vegabréf og lyf

Sagði þá flugfreyjan stúlkunni að setjast niður og róa sig á meðan hún færi og léti aðra í áhöfninni vita af þessu. En þegar annar úr áhöfninni kom til að tala við stúlkuna þá hafði sagan skyndilega breyst. Sagðist stúlkan vera með vegabréfið sitt en í veskinu hennar væru lyfin hennar sem hún yrði nauðsynlega að fá.

„Svo varð þetta enn þá fáránlegra,“ segir farþeginn. Áhöfnin spurði stúlkuna hvers konar lyf þetta væru og kannski væru þau með slík lyf um borð fyrir hana. Þá reiddist hún og vildi ekki svara hvers kyns lyf væru í töskunni, sagði hún að það skipti ekki máli. Hún þyrfti að fá veskið sitt núna sama hvað og að hún hefði ekki tíma til að eiga þetta samtal.

Öskraði á áhöfnina

Sendur var út hópur í Leifsstöð til að leita að veskinu á staðnum sem stúlkan talaði um en fann ekki neitt. Var stúlkan látin vita af þessu en þá fór bróðir hennar að skipta sér af. Stóð hann upp og öskraði á áhöfnina að hann gæti farið og leitað að veskinu.

Var bróðirinn látinn vita að það væri ekki hægt að leyfa honum að gera það þá rauk hann af stað og krafðist þess að fá að tala við flugstjórann. „Ég er flugstjóri sjálfur og veit hvað er mögulegt að gera,“ sagði bróðirinn með þjósti. Sagði hann að systir sín myndi ekki lifa flugið af án þess að fá lyfin sín.

Rekin frá borði

Eftir 45 mínútur af uppnámi voru aðrir farþegar orðnir mjög þreyttir á þessu og fannst fólki að það ætti að hleypa systkinunum út. Var það loks gert og tóku þau handfarangurinn sinn með sér út.

Skömmu seinna lét flugstjórinn farþegana vita að systkinin hefðu verið rekin úr fluginu. Veskið hefði fundist en það hefðu ekki verið nein lyf í því.

Yfirfara allan farangurinn

Hins vegar þýddi þetta að vegna öryggis þurfti áhöfnin að fara yfir allan handfarangur í vélinni og staðfesta hvaða tösku eða poka hver og einn farþegi var með. Það er til þess að ganga úr skugga um að systkinin tvö hefðu ekki skilið neitt vafasamt eftir í vélinni. Í heildina þýddi þetta að flugið tafðist um klukkutíma eða þar um bil.

„Það var óþolandi að sjá hversu dónaleg þau voru við áhöfnina sem var kurteis og að þeim fannst allt í lagi að sólunda tíma annarra,“ segir farþeginn. „Þetta var stútfullt flug með börnum um borð. Hún vildi ábyggilega bara ekki tapa veskinu sínu og skáldaði þessa sögu til að einhver myndi fara og sækja það fyrir sig.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sakaður um sérstaklega hættulega hnífaárás þegar hann var 15 ára – Stakk ungling í bakið

Sakaður um sérstaklega hættulega hnífaárás þegar hann var 15 ára – Stakk ungling í bakið
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Mannlaus Hopp-bíll fastur í drullupytti á viðkvæmu svæði á Seltjarnarnesi – Lögregla rannsakar málið

Mannlaus Hopp-bíll fastur í drullupytti á viðkvæmu svæði á Seltjarnarnesi – Lögregla rannsakar málið
Fréttir
Í gær

Síðustu dagar Gene Hackman

Síðustu dagar Gene Hackman
Fréttir
Í gær

Eiginkona Einars býr á hjúkrunarheimili sem á að byggja ofan á – „Þetta er fullkomlega skelfilegt“

Eiginkona Einars býr á hjúkrunarheimili sem á að byggja ofan á – „Þetta er fullkomlega skelfilegt“
Fréttir
Í gær

Eliza Reid um ógnina frá Trump – „Sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd“

Eliza Reid um ógnina frá Trump – „Sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd“
Fréttir
Í gær

Dánarorsök hunds Hackman hjónanna opinberuð – Tveir aðrir hundar lifðu af

Dánarorsök hunds Hackman hjónanna opinberuð – Tveir aðrir hundar lifðu af