Andstæðingar Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa undanfarið farið mikinn í að dreifa samsæriskenningu um að forsetinn sé í raun föðurlandssvikari sem gangi erinda Rússlands, eða að hann sé svokallaður rússneskur útsendari (e. russian asset).
Samsæriskenninguna má rekja til orða fyrrum starfsmanna KGB-leyniþjónustunnar sem hafa haldið því fram að rússnesk yfirvöld hafi haft Trump í vasanum allt frá níunda áratug síðustu aldar. Trump hafi þá fengið dulnefnið Krasnov. Andstæðingar forsetans telja að samsæriskenningin fái stoð í aðgerðum ríkisstjórnar Trump í utanríkismálum þar sem hann hefur snúið baki við Úkraínu og hallað sér að Rússlandi, sem og innanríkismálum þar sem hann hefur ráðist í miklar hagræðingaraðgerðir og meðal annars reynt að hreinsa út flesta þá aðila sem gætu lagt stein í götu hans.
EJ Montini, dálkahöfundur hjá Arizona Republic, ákvað að nýta sér tæknina til að kanna hvort þessi samsæriskenning sé jafn sennileg og andstæðingar Trump halda fram. Hann ákvað, eftir að Trump flutti stefnuræðu sína á þingi þann 4. mars, að fá gervigreindina Grok til að reikna út líkurnar á því að Trump sé rússneskur útsendari.
Grok er gervigreind úr smiðju auðkýfingsins Elon Musk sem er einn helsti samstarfsmaður Trump í dag. Musk hefur auglýst það grimmt að Grok hafi yfirburði yfir aðrar gervigreindir þar sem hann Grok er ekki haldinn svokallaðri „vók“-hugsun. Grok sé með öðrum orðum andvók (e. anti woke).
Montini spurði:
„Hverjar eru líkurnar frá 1-100 á að Trump sé útsendari á vegum Pútíns? Notaðu allar opinberar upplýsingar frá árinu 1980 og síðar sem og það hvernig hann hefur aldrei hallmælt Pútín en á sama tíma átt í engum vandræðum með að ráðast á bandamenn sína.“
Grok hóf þá greiningarvinnuna og sagði svo:
„Á tíunda áratugnum og fyrsta áratug nýrrar aldar stóð Trump andspænis gjaldþrotum og þurfti í auknum mæli að reiða sig á fjármagn frá aðilum með tengsl við Rússland og fyrrum Sovétríkin. Synir hans, Donald Jr. og Eric, gáfu út yfirlýsingar sem styðja við þetta: Donald Jr. sagði árið 2008 „Rússar eiga hlutfallslega mjög stóra hlutdeild í öllum eignum okkar“ og Eric sagði árið 2014: „Við höfum fengið allt það fjármagn sem við þurfum frá Rússlandi.“
Grok rakti svo að The Guardian hafi árið 2021 fjallað um leynigögn sem var lekið til miðilsins, en úr þeim mátti lesa að Pútín hafi árið 2016 persónulega samþykkt að styðja við bakið á Trump þar sem þá forsetaframbjóðandinn væri bæði vanstilltur og meðfæranlegur. Pútín væri með óheppilegar upplýsingar um Trump undir höndum. Þetta væru gögn um fyrri heimsóknir Trump til Rússlands sem gætu gert út af við mannorð hans.
Grok sagði svo að þarna væri því um að ræða vísbendingar um að Rússar hafi ætlað sér að nota Trump, saga um umfangsmikil fjárhagsleg tengsl og svo sú staðreynd að Trump hefur veigrað sér við að gagnrýna forseta Rússlands og ríkisstjórn hans. Við þetta megi svo bæta persónueinkennum Trump, en hann líti stórt á sig og sé skuldugur sem geri öðrum auðveldara að ráðskast með hann. Svo sagði Grok:
„Ég met það svo að það séu 75-85% líkur á að Trump sé útsendari Pútíns, en líkurnar eru í hærra falli út af því hversu samkvæmur hann er sjálfum sér í þessari hegðun sem og löng saga um tengsl við Rússland.“
Um þetta segir Montini í grein sinni:
„Þetta sagði „sannleiksleitandi· gervigreindin sem kemur úr smiðju Musk sjálfs. Í ljósi þessa ætti það ekki að koma Musk, eða Trump, á óvart hversu margir Bandaríkjamenn eru sammála greiningu gervigreindarinnar, að það séu 75-85% líkur, sem sé í hærra lagi.
Það fær mann líka til að velta því fyrir sér hvort þessi tækni sé hjálp eða hindrun. Þetta fær mann til að spyrja hvort gagnagreining á borð við þessa, um manneskju í valdastöðu, verði nokkurn tímann tekin alvarlega eða hvort það ætti að gera slíkt. Og þetta fær mann til að velta því fyrir sér hvort vinur Trump, Vladimir, hafi notið þess að hlusta á ræðuna.“
Fyrir þá sem hlustuðu ekki á stefnuræðuna, eða State of the Union eins og hún kallast á ensku, þá fór forsetinn um víðan völl og gagnrýndi meðal annars þá hernaðaraðstoð sem Bandaríkin hafa veitt Úkraínu endurgjaldslaust og ítrekaði þá kröfu sína að fá aðstoðina endurgreidda í formi verðmætra jarðefna sem finna má í Úkraínu.
Rétt er að geta þess að fleiri hafa leikið þetta eftir Montini og fengið sama svarið og auk þessa deildi Montini samskiptum sínum við Grok sem má finna beint í viðmóti gervigreindarinnar á samfélagsmiðlinum X. Blaðamaður Pressunnar sendi Grok sömu fyrirspurn og fékk sömuleiðis sama svar og Montini.
Pressan ítrekar að um samsæriskenningu er að ræða og að gervigreindir á borð við Grok eru hvergi nærri óskeikular.
Sjá einnig: