Tækling Samúels Kára á Gabríel Hrannar Eyjólfsson í leik gegn KR í Lengjubikarnum í gær hefur vakið mikla athygli og umtal. Það var lítið um að vera í leiknum, sem KR vann 1-3, þegar Gabríel Hrannar tók við boltanum úti við hliðarlínu en þá mætti Samúel Kári og þrumaði hann niður. Dómari leiksins, Elías Ingi Árnason, reif strax upp rauða spjaldið.
„Það er ótrúlegt að hann hafi ekki stórslasað Gabríel Hrannar. Þetta er úti við hliðarlínu, ekkert að gerast. Ég skil ekki hvað drengnum gengur til. Hann er eitthvað pirripú yfir að vera kominn til Íslands þrítugur eftir mörg ár í atvinnumennsku,“ segir Kristján Óli í Þungavigtinni, en Samúel Kári gekk í raðir Stjörnunnar í vetur.
Kristján Óli segir að þetta sé ekki eina atvikið upp á síðkastið þar sem Samúel Kári verður sér til skammar. Það hafi einnig gerst í tapi Stjörnunnar gegn Keflavík í sömu keppni á dögunum.
„Hegðun hans inni á fótboltavellinum upp á síðkastið hefur verið til skammar. Ég ætla að biðja ykkur um að halda fyrir eyrun á börnunum ykkar en í 1-4 tapi Stjörnunnar á hans fyrrum liði í Keflavík kallaði hann línuvörð hóru. Vilhjálmur Alvar (dómari) og félagar létu það nægja að spjalda hann þar,“ segir Kristján Óli.
„Þetta var ógeðsleg tækling. Samúel Kári má skammast sín og hann hlýtur að vera búinn að hringja í Gabríel Hrannar og jafnvel senda honum blóm. Guð blessi Stjörnuna ef þetta er það sem koma skal frá honum.“