Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Elon Musk, milljarðamæringur, hnakkrifust á ríkisstjórnarfundi á fimmtudag í Hvíta húsinu. Töldu Rubio og fleiri Musk vera að taka sér of mikil völd.
Reuters greinir frá þessu.
Musk hefur verið ráðinn af Donald Trump til þess að hafa yfirumsjón með niðurskurði innan bandaríska ríkisins. Sett hefur verið á fót sérstök stofnun, DOGE, til þess að finna sparnaðarleiðir. Einna helst að segja upp samningum við opinbera starfsmenn.
Trump var viðstaddur fundinn þar sem allt sauð upp úr. En Musk taldi ráðherra ekki vera að gera nóg til þess að spara.
Musk beindi spjótum sínum sérstaklega að Rubio, sagði hann engan hafa rekið og að hann væri að standa í vegi fyrir uppsögnum. Rubio svaraði og sagði að 1.500 starfsmenn ráðuneytisins hefðu farið fyrr á eftirlaun. Spurði hann Musk í kaldhæðni hvort hann ætti að ráða þetta fólk aftur til þess eins að geta rekið það á ný.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fengið ófá símtöl frá forstjórnum ríkisstofnana vegna framgöngu Musk og DOGE. Kvartað er yfir hörkunni og bent á að kjósendur eru reiðir, enda finna flestar fjölskyldur fyrir uppsögnunum og niðurskurðinum.
Trump var sjálfur viðstaddur hitafundinn og lét Elon Musk vita að það væri hann og ríkisstjórnin sem hefði lokaorðið en ekki Musk. Á blaðamannafundi á föstudag þvertók hann hins vegar fyrir að soðið hefði upp úr.
„Það voru engin rifrildi, ég var þarna, þú ert bara að búa til vandræði,“ sagði Trump við spurningu blaðamanns The Times um málið. „Marco er búinn að vinna ótrúlegt starf í utanríkisráðuneytinu. Og Elon er einstakur gaur sem er búinn að vinna frábæra vinnu.“
Ekki er langt síðan að greint var frá því að útreikningar DOGE væru í mörgum tilfellum afar hæpnir. Fyrir ekki svo löngu síðan voru fimm stærstu „sparnaðarverkefnin“ tekin út af síðu DOGE í ljósi þess að þau voru alvarlega misreiknuð. Meðal annars að 8 milljarða dollara samningur í innflytjenda og tollamálum hafi aðeins reynst vera 8 milljóna dollara virði.
Hefur þetta grafið verulega undir trausti gagnvart DOGE og Elon Musk. Ekki síst í ljósi þess að niðurskurðurinn hefur bein áhrif á fólk og fjárhag þeirra.