Það er mun erfiðara fyrir félagslið á Englandi að spila í Evrópudeildinni en Meistaradeildinni að sögn Ruben Amorim.
Amorim er stjóri Manchester United en hann sá sína menn gera 1-1 jafntefli við Real Sociedad í vikunni.
Portúgalinn er ekki að segja að leikirnir í þeirri keppni séu erfiðari heldur það að þurfa að spila á fimmtudögum frekar en kannski þriðjudögum.
,,Við þurfum að lifa sunnudaginn af. Liðið var svo þreytt síðustu 20 mínúturnar,“ sagði Amorim.
,,Að mínu mati er Evrópudeildin miklu erfiðari en Meistaradeildin, ekki leikirnir heldur það að ná að jafna sig fyrir leiki helgarinnar – við þurfum að glíma við það.“