Granit Xhaka, fyrrum leikmaður Arsenal og núverandi leikmaður Bayer Leverkusen, var hundfúll með enska dómarann Michael Oliver í vikunni.
Oliver dæmdi leik Leverkusen við Bayern Munchen í Meistaradeildinni þar sem það síðarnefnda fékk mögulega ódýra vítaspyrnu í 3-0 sigri.
Xhaka þekkir Oliver sem dæmir í ensku úrvalsdeildinni og er handviss um að hann hefði aldrei gert það sama ef leikurinn væri í einmitt þeirri keppni.
,,Í ensku úrvalsdeildinni þá myndi þessi maður ekki dæma vítaspyrnu,“ sagði Xhaka eftir leikinn.
,,Ég var þarna í sjö ár og ég þekki Michael. Ég er sannfærður um að hann hefði aldrei flautað á þetta í úrvalsdeildinni.“
,,Þetta er ansi svekkjandi að hann hafi flautað á þetta á þessu gæðastigi og þetta gæti ráðið úrslitum í einvíginu. Ef þú dæmir á svona hluti þá væru miklu fleiri vítaspyrnur í hverjum leik.“