Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli hjóna gegn öðrum hjónum sem þau fyrrnefndu höfðu keypt fasteign af. Var kaupendunum dæmt í óhag þótt þeim hafi tekist að færa sönnur á að eignin hafi verið haldin göllum við kaupin. Ástæðan var sú að þau voru of sein að grípa til aðgerða í því skyni að sækja rétt sinn gagnvart seljendunum.
Í dómum Landsréttar og Héraðsdóms kemur fram að málið eigi rætur sínar að rekja til ársins 2017 þegar gengið var frá kaupunum á fasteigninni. Fljótlega komu í ljós tilteknir gallar á henni og gerðu málsaðilar með sér samkomulag af því tilefni um afslátt af kaupverði. Að sögn kaupendanna leið ekki á löngu þar til þeim varð ljóst að verulegir vankantar væru á smíði hússins. Þannig hefðu komið fram rakaskemmdir sem hefðu ágerst með tímanum með þeim afleiðingum að þau hefðu flutt úr húsinu ílok maí 2022.
Kröfðust kaupendurnir skaðabóta úr hendi seljendanna.
Dómskvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ísetning glugga og uppsetning einangrunar í húsinu hafi ekki samræmst kröfum byggingarreglugerðar, auk þess sem að loftun á þaki hafi verið ábótavant vegna mistaka við byggingu hússins.
Héraðsdómur taldi að mað þessari matsgerð hafi kaupendurnir sýnt fram á að fasteignin hafi verið haldin göllum í skilningi laga og Landsréttur tekur undir þá niðurstöðu.
Í dómi Landsréttar er hins vegar minnt á að í dómi héraðsdóms hafi verið lagt til grundvallar að seljendum hefði ekki verið tilkynnt um galla á eigninni innan sanngjarns frests eftir að kaupendurnir urðu eða máttu hafa orðið varir við þessa galla. Ljóst sé að þetta hafi kaupendur fyrst gert með bréfi sem sent hefði verið seljendum þegar rúmlega fimm ár hefðu verið liðin frá afhendingu fasteignarinnar. Þar af leiðandi hafi réttur til að bera fyrir sig galla, samkvæmt lögum um fasteignakaup, verið niður fallinn.
Staðfestir Landsréttur þessa niðurstöðu héraðsdóms og vísar jafn framt í niðurstöðu hans um sýknu seljendanna að ekki væru forsendur til að beita ákvæði fasteignakaupalaga um seljandi geti ekki borið fyrir sig að tilkynning um galla hafi verið send of seint ef hann hefur sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú.
Þar af leiðandi telur Landsréttur að ákvæði laga um fasteignakaup, um að seljandi geti ekki borið fyrir sig að tilkynning um galla hafi verið send of seint ef hann hefur sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú, eigi við í málinu.
Niðurstaða héraðsdóms var því staðfest og seljendurnir sýknaðir af öllum kröfum kaupendanna á þeim grundvelli að þau síðarnefndu hefðu verið of sein að bregðast við, þó þeim hafi tekist að sanna að eignin hafi verið gölluð þegar hún var keypt.