Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Arnar Gunnlaugsson, fyrrum þjálfari Víkings, kynnir sinn fyrsta hóp sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í næstu viku. Í þættinum var því velt upp hvort eitthvað áhugavert gæti þar komið upp úr hattinum.
„Ég er aðallega spenntur að sjá hvort það verði eitthvað óvænt. Alfons er búinn að vera úti í kuldanum lengi í Birmingham og mér finnst Dagur Dan eiga skilið tækifæri. Svo er það spurning með Benoný Breka, Elías Má og Hólmbert, sem hafa verið að gera fína hluti undanfarið,“ sagði Hrafnkell áður en Halldór tók til máls.
„Það eru miklu fleiri leikmenn að velja úr þegar þú ert landsliðsþjálfari en ég geri ráð fyrir að hann sé að nýta tímann vel og mynda sér sterka skoðun á hvaða leikmenn henta í þetta verkefni. Ég hugsa að það verði ekki einhverjar stórkostlegar breytingar.“
Umræðan í heild er í spilaranum.