Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Ísak Snær Þorvaldsson barst í tal í þættinum, en hann átti stóran þátt í Íslandsmeistaratitli Blika í fyrra. Þá var hann á láni frá Rosenborg. Hann hefur verið að standa sig á undirbúningstímabilinu með norska liðinu og býst Halldór ekki við að hann snúi aftur í Kópavoginn í sumar, þó hann útiloki ekkert.
„Hann spilaði mikið á miðjunni með Rosenborg á Atlantic Cup. Það er áhugavert að sjá hvort þeir ætli að nota hann sem miðjumann því það er mikil samkeppni um framherjastöðuna. En ég hef mikla trú á að Ísak geti slegið í gegn í þessari deild ef hann fær traustið.
Við fylgjumst vel honum. Hann æfði með okkur í desember og janúar áður en hann fór út aftur og þá sammældust við um að hann myndi fara út og kýla á þetta, við værum ekkert að trufla hann með það. En hann veit það að ef það breytist eitthvað þá eru dyrnar opnar. En við höldum með honum í þessari samkeppni úti í Rosenborg,“ sagði Halldór um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.