Gunnar Pállsson, fyrrverandi sendiherra, telur að það geti verið varhugavert fyrir Ísland að fylgja ESB að málum hvað varðar afstöðu til Úkraínu-stríðsins, fremur en Bandaríkjunum, sem nú hafa kúvent í afstöðu sinni í málinu og vilja umfram allt binda enda á stríðsátökin með friðarsamningi.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Gunnars á Vísir.is.
Gunnar segir að mörg Evrópuríki hafi sýnt tregðu gagnvart þessari nýju stefnu Bandaríkjanna, það sé skiljanlegt en ekki skynsamlegt. Evrópuríkin sjálf hafi ekki nothæfa áætlun um hvernig halda skuli stríðinu áfram og ljóst sé að friður sé eina leiðin:
„Viðbrögð Evrópuríkjanna við þessari umfangsmiklu kúvendingu Bandaríkjanna hafa verið blendin. Mörg þeirra hafa ekki látið við það sitja að gagnrýna áformin, heldur hafa ýmist reynt að torvelda framkvæmd þeirra eða telja bandamönnum sínum hughvarf. Skýringanna er ekki langt að leita. Það var undir forystu Bandaríkjanna sem aðild Úkraínu að NATO var upphaflega sett á dagskrá gegn vilja stórra Evrópuríkja. Það voru síðan Bandaríkin sjálf sem drógu vagninn fyrir sameiginlegum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum eftir innrás þeirra í Úkraínu 2014 og 2022.
Tregða Evrópuríkjanna til að snúast á ásnum með Bandaríkjunum er því fyllilega skiljanleg. En hún er einnig misráðin. Evrópuríkin hafa ekki sýnt fram að þau hafi nothæfa, hvað þá sameiginlega, áætlun um hvernig halda skuli baráttunni í Úkraínu til streitu, nú þegar fyrirsjáanlegt er að Bandaríkin kunni að hellast úr lestinni. Þrátt fyrir gríðarlegar fórnir Úkraínumanna, stórfellt mannfall og eyðileggingu, fólksflótta og missi meira en fimmtungs landsins til rússneska innrásarliðsins, virðast Evrópuríkin líta svo á að enn sé ekki fullreynt hvort óbreytt stefna beri á endanum tilætlaðan árangur. Er óneitanlega nokkur kaldhæðni í því fólgin að kalla slíka afstöðu “að standa með” Úkraínu.“
Gunnar segir að óbreytt stefna sé ekki í boði. Það sé jákvætt til lengri tíma að Evrópa hafi ákveðið að stórauka framlög til varnarmála en það muni ekki nýtast Úkraínu í átökunum við Rússa heldur sé það lengri tíma mál.
Gunnar segir að Ísland vilji helst ekki þurfa að velja á milli Bandaríkjanna og Evrópu. En í þessu máli sé varhugavert að fylgja ESB ef leiðir skilja milli þess og Bandaríkjanna:
„Frá árdögum lýðveldisins hefur það verið leiðarstef íslenskrar utanríkisstefnu að þjóðin verði ekki knúin til að velja á milli samstarfs við Norður-Ameríku og Evrópu. Það væri í samræmi við þá meginhagsmuni að stjórnvöld tækju undir tilraunir Bandaríkjanna til að leiða til lykta það ógnvænlega ástand sem nú ríkir í Úkraínu. Vænti þau þess að ESB, fari það sínar eigin leiðir, muni í fyrirsjáanlegri framtíð vísa veginn til friðar í álfunni, gæti það reynst viðsjárvert villuljós.“