Deildin skilaði um 11,7 milljóna króna hagnaði í fyrra, en til samanburðar var hagnaðurinn um 27,7 milljónir 2023. Tekjur félagsins, sem koma frá miðasölu, samstarfsaðilum, útsendingarétti, félagaskiptum, söluvarningi og veitingum og öðrum tekjum, námu 384,5 milljónum og vó það síðastnefnda þyngst eða hátt í 208 milljónir.
Það má sjá að laun og launatengd gjöld hækka mikið milli ára. Tæpar 167 milljónir fóru í þennan kostnaðarlið 2023 en um 227 milljónir í fyrra.
Deildin tók þá yfirdrátt upp á tæpa 21 milljón 2024 og er það hækkun milli ára, en yfirdráttur var rúmar 17 milljónir 2023.
Veltan er varðar keypta og selda leikmenn hækkar mikið milli ára. KR keypti leikmenn fyrir tæpar 24 milljónir árið 2024 en seldi þó fyrir um 13,5 milljónir meira, eða um 37,5 milljónir. Til samanburðar keypti KR fyrir um 6 milljónir í fyrra en seldi fyrir 1,75 milljónir.
Eigið fé knattspyrnudeildar KR í árslok 2024 var neikvætt um 50,5 milljónir. Stjórnin leggur til að hagnaðurinn verði færður til hækkunar á eigið fé.
Karlalið KR hafnaði í 8. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð en horfir til betri vegar með Óskar Hrafn Þorvaldsson í brúnni. Kvennalið félagsins hefur verið í mikilli lægð undanfarin ár en kom sér upp úr þriðju efstu deild í fyrra og í Lengjudeildina.