Newcastle er búið að teikna upp þriggja manna lista af framherjum ef Alexander Isak yfirgefur félagið í sumar. Daily Mail fjallar um málið.
Sænski framherjinn er eftirsóttur eftir frábært tímabil en Newcastle hefur þó engan áhuga á að selja hann. Skildi eitthvað félag borga ansi rausnarlega upphæð fyrir Isak í sumar er félagið hins vegar búið að henda upp lista með nöfnum sem gætu leyst hans skarð.
Þar eru á blaði Benjamin Sesko hjá RB Leipzig og Jonathan David hjá Lille. Báðir leikmenn hafa verið orðaðir við stórlið undanfarna mánuði og ár.
Sá þriðji á blaði er öllu minna nafn en hefur samt heillað á leiktíðinni, Liam Delap. Sá er á mála hjá nýliðum Ipswich í ensku úrvalsdeildinni og er kominn með tíu mörk á leiktíðinni.