Ókyrrðin í heiminum getur gert hvern mann brjálaðan og staðreyndin er auðvitað sú að ekkert okkar er nokkru bættara við það að reyna að ráða í gang mála. Það er fullkomin tímasóun.
Friður virðist ekki í augsýn nema síður sé en við getum því lagt kapp á að finna frið með okkur sjálfum. En hvernig á að gera það án þess að heilinn framleiði nagandi áhyggjur af einu og öðru og barni þær áhyggjur svo með áframhaldandi áhyggjum af óorðnum hlutum og jafnvel atburðum sem aldrei munu verða? Heilinn er óvinveitt skrapatól þegar kemur að því að slaka á eða finna frið.
Öðru máli gegnir um líkamann, þessa mögnuðu maskínu sem heldur okkur gangandi og því finnst mér betra að einbeita mér að honum en að leggja kapp á að lempa heilaspunann þegar ég ætla að róa niður taugakerfið. Það er hvíld í því að færa sig úr heilanum inn í líkamann og æsispennandi að komast að því hvers maður verður vísari.
Það er auðvelt að hugleiða hvar sem er, hvenær sem er og sú hugleiðsla þarf ekki að taka langan tíma.
Sitjandi eða liggjandi, þitt er valið. Finndu fyrir eigin þunga. Hlustaðu eftir andardrætti þínum, er öndunin hröð eða hæg? Er þér þungt fyrir brjósti, áttu erfitt með að anda ofan í magann? Þetta eru bara upplýsingar og ekkert sem þarf að lagfæra eða stýra. Þú ert bara að færa hugsunina úr höfðinu og að líkamanum.
Mér finnst gott að byrja hugleiðslu á því að þakka líkamanum fyrir streðið og ávarpa hann af virðingu:
Kæri líkami, þakka þér fyrir að hafa reynst mér vel, að hafa komið mér í gegnum ýmsa þrekraunina. Fyrir að hafa þolað mér illa meðferð og afskiptaleysi. Nú er ég loksins mætt til að eyða með þér smástund, því ég hef loksins skilið að þú ert mér allt og að þú vilt mér vel.
Að þessum ræðuhöldum loknum einbeiti ég mér að hverjum líkamsparti fyrir sig og reyni að finna umfram það að skilja.
Fæturnir hafa borið mig meira en hálfa öld, finn ég fyrir þreytu í þeim? Takk fyrir að ganga með mér um fjarlæg lönd og fallega staði. Hvers vegna ekki að strjúka þeim og þakka þeim fyrir að bera mig, að þola það þegar ég hef dansað og djöflast klukkutímum saman.
Fótleggirnir, eru vöðvar þeirra spenntir? Hvers vegna? Hvað eru þeir að vernda? Eru þeir tilbúnir að leggja á flótta? Er einhver hætta á ferð einmitt núna?
Hvíslar mjaðmagrindin einhverju að mér? Mjaðmirnar verða víst stífar ef maður er í bölvaðri klemmu en mýkjast þegar maður finnur til öryggis. Maginn er vitur og undirmeðvitundin býr oft um sig þar. Gaula í mér garnirnar eða er ég mett? Er ég að næra mig nógu vel? Er kviðurinn mjúkur eða harður? Margir geyma kvíðann í hnútum ímaganum. Strjúktu maganum, kannski vaknar eitthvað í þér við það. Hummaðu með lokaðan munn og finndu hreyfingu hljóðsins berast niður líkamann.
Brjóstið geymir sorgirnar og mestu gleðina líka. Hvernig er hjartslátturinn? Hægur eða hraður? En andardrátturinn? Yfirvegaður og hægur eða eins og í æstum sporhundi? Leggðu höndina á brjóstið og þakkaðu tilfinningageymslunni fyrir að vera hluti af þér og öllu því sem þú hefur reynt og séð. Brostu, það léttir á.
Handleggir og hendur eru aðalverkfærin okkar. Horfðu á hendurnar þínar, allt sem þær hafa gert! Allt sem þær hafa búið til. Allt sem þær hafa snert, faðmað, eyðilagt og haldið á fyrir þig! Hendurnar bregðast stanslaust við, þær sækja, ýta, færa, breyta, strjúka, kitla, alveg makalaus verkfæri! Spenntu greipar! Kúl að geta gert þetta!
Hvernig hafa herðarnar það í dag? Eru þær á leið til himna eða beygðar fram á við? Hvað veldur? Það er ágætt að draga þær upp að eyrum og láta þær falla. Færa axlirnar aftur og fram með brjóstið. Hvernig tilfinning er það? Hvernig er hálsinn? Stífur? Mjúkur? Það er gott að strjúka á sér hálsinn. Ég er með gamalt brjósklos í hálsi og ég reyni því að þakka hálsinum daglega fyrir dugnaðinn og úthaldið að halda þessu mistæka höfði uppi. Ef ég geri það ekki, þá kallar hálsinn eftir athygli eins og pirrað barn.
Andlitið geymir ýmsan fróðleik. Er kjálkinn stífur? Augun á iði? Munnurinn hertur? Efsta hæð líkamans varðveitir streitu, hugsanafargan sem oft er mikið til bara lélegur skáldskapur sem enginn myndi vilja gefa út.
Þegar maður beinir athyglinni að líkamanum þá bregst hann við en þau viðbrögð þarf ekki að skýra með orðum. Hvers konar tilfinningar vakna? Verður einbeiting þín á hvern líkamspart til þess að minningar vakna? Að þú fáir vitneskju um hvað líkaminn þarfnast?
Þarftu að borða, hreyfa þig, teygja? Draga andann dýpra?
Samskipti við líkamann eru skemmtileg þegar maður lærir að þekkja merkin sem hann gefur frá sér. Líkaminn er fyrirtækið þitt og líkamspartarnir starfsmenn þess. Kviðurinn færir þér til dæmis margháttaða vitneskju á undan heilanum og hjartað finnur best það sem huganum yfirsést eða kýs að líta fram hjá.
Hvað á svo að gera við þær orðlausu upplýsingar sem maður fær við það að mynda vinasamband við líkamann? Ekkert. Bara að taka eftir þeim, það er fyrsta skrefið.
Þér er líka óhætt að spyrja líkamspartana bara spurninga. Ágæti magi, af hverju ertu svona stífur í dag? Ef ekkert svar berst eða tilfinning, þá strýkurðu honum aðeins og spyrð aftur, kannski verðurðu einhvers vísari. Ef þú ert engu nær, þá er það allt í lagi. Sum svör berast hratt, önnur hægt. Fylgstu bara með og leyfðu líkamanum að venjast því að þú veitir honum athygli.
Ég get hins vegar lofað því að þeim mun oftar sem þú sýnir líkamanum athygli á þennan hátt því glaðari verður hann og viljugri til að standa sig þín vegna. Líkaminn hoppar af kátínu um leið og hann finnur að þú tekur eftir honum og gefur honum þína óskiptu athygli. Hver einasta fruma líkamans er alltaf að bíða eftir því að þú látir þér þykja vænt um þig.