Það vakti mikla athygli fyrr í vetur þegar fréttir bárust af því að Björn Berg Bryde hefði verið látinn fara sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar. Aðalþjálfaranum Jökli Elísabetarsyni finnst miður að það niðurstaðan í málinu hafi orðið sú sem raun bar vitni.
Jökull var spurður út í málið í Chess After Dark og gaf örlitla innsýn í það þó svo að hann hafi ekki farið út í nein smáatriði. „Þetta er snúið mál. Ég hafði engan áhuga á að missa Bjössa, finnst hann geggjaður og á alveg eins von á að við vinnum saman aftur seinna. Þetta er alvöru gæi, vel gefinn og traustur.“
Mikið fréttafár var í kringum meintan brottreksturs Björns og fjallaði Fótbolti.net til að mynda um að það hafi snúið að utanlandsferð sem hann fór í, þvert á vilja Stjörnunnar þar sem undirbúningstímabilið var komið á fullt.
„Ég veit ekki hversu mikið ég vil fara út í okkar samtöl. Við vorum með samkomulag og ræddum hlutina opinskátt áður en við fórum af stað í þetta undirbúningstímabil. Það endaði eins og það endaði. Ég held að báðir aðilar, ég og hann, hafi verið svekktir með þá niðurstöðu. Ég held að hann hafi ekki viljað hætta og ég vildi ekki missa hann. Við vorum búnir að taka samtöl um ákveðna hluti. Eitthvað af þessu hefur komið út og ég ætla ekkert að fara meira út í það,“ sagði Jökull enn fremur í hlaðvarpinu.
Jökull ber Birni þó vel söguna. „Ég vona að hann helli sér aftur út í þjálfun því ég held að hann gæti orðið öflugur.“