Vísindamenn geta ekki sagt nákvæmlega til um hvenær eða hvernig næsti heimsfaraldur hefst en þeir segja ekki ólíklegt að það gerist fyrr en síðar.
Á undanförnum vikum hefur dularfullur veirusjúkdómur brotist út í vesturhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó og hafa að minnsta kosti 60 manns látist af hans völdum. Áður höfðu Marburgveira og apabóla herjað í austanverðri Afríku.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að þessi dularfulli sjúkdómur sé hvorki ebóla, Marburgveira né apabóla og að sjúklingarnir sýni einkenni „blæðandi hitasóttar“.
Í rannsókn, sem var birt í vísindaritinu the British Medical Journal í nóvember 2023, kom fram að fjórar veirur þyki koma sterklega til greina sem uppspretta næsta heimsfaraldurs.
Þetta eru ebóla og Marburgveiran, SARS, Nipahveiran og Machupoveiran. Faröldrum af völdum þessara veira fjölgaði mjög mikið frá 1963 til 2019.
Paul Hunter, hjá University of East Anglia, ræddi við blaðamann The Sun nýlega og skýrði nánar frá fyrrgreindum veirum og hvaðan þær geta borist.
Ebóla og Marburgveiran eru mjög smitandi. Þær koma úr leðurblökum og er dánartíðnin af þeirra völdum há. Báðir sjúkdómarnir hafa blossað upp öðru hvoru í Afríku á síðustu árum og geta að sögn Hunter breiðst út.
Þessar veirur smitast yfirleitt aðeins við frekar nána snertingu og því er ólíklegt að úr verði heimsfaraldur á næstunni. Til að svo illa fari þurfa veirurnar að breyta smitleiðum sínum mjög mikið að sögn Hunter.
SARS er öndunarfærasjúkdómur sem kórónuveira veldur, sú sama og veldur COVID-19. Hunter sagði að talið sé að SARS komi frá leðurblökum og sé líklegasti sjúkdómurinn til að valda næsta heimsfaraldri. Ástæðan er að hann er svo bráðsmitandi.
Nipah er veira sem berst frá leðurblökum eða búfénaði og gæti vel valdið næsta heimsfaraldri. Veiran ræðst á heilann sem bólgnar upp. Dánartíðnin er 75%. Af þeim sem lifa smit af, glíma um 20% við langtíma áhrif á taugakerfið, þar á meðal persónuleikabreytingar eða flog.
Machupo uppgötvaðist fyrst í Bólivíu 1959. Sjúkdómurinn kemur frá nagdýrum, nánar tiltekið frá músategund sem býr í Bólivíu. Hunter sagði að þetta gæti orðið heimsfaraldur ef sjúkdómurinn breiðist út meðal nagdýra á heimsvísu. Sjúkdómseinkennin eru svipuð og við ebólusmit, blæðingar, hár hiti, verkir og skjótur dauðdagi. WHO segir að fjórðungur til þriðjungur smitaðra látist af völdum sjúkdómsins.