„Ég á dreng sem hefur blómstrað hjá Janusi endurhæfingu og núna er hann niðurbrotinn yfir þessum fréttum,“ segir móðir 19 ára unglings með ógreindan vanda sem hefur sótt þjónustu hjá Janusi endurhæfingu undanfarna tvo til þrjá mánuði. Úrræðinu verður lokað þann 1. júní, þar sem ekki fæst fjárframlag lengur til rekstursins frá ríkinu, og hefur öllu starfsfólki verið sagt upp. „Þetta er hræðilega sorglegt,“ segir móðirin.
Tilkynning frá Janusi endurhæfingu um þetta er eftirfarandi:
„Yfirlýsing frá stjórn Janusar endurhæfingar
Sérhæft geðendurhæfingarúrræði fyrir ungt fólk, 18 ára+, lokar 1. júní 2025
Það er þyngra en tárum taki að tilkynna að Janus endurhæfing neyðist til að leggja niður þverfaglega læknisfræðilega heildræna geðendurhæfingu þann 1. júní næstkomandi. Úrræðið er sérhæft fyrir ungt fólk, 18 ára og eldra. Nauðsynlegt fjármagn fæst ekki til að veita endurhæfinguna áfram og af þeim sökum hefur erfið ákvörðun verið tekin. Hópuppsögn, öllu starfsfólki sagt upp.
„Þetta hjálpaði honum út úr einangrun og út í samfélagið aftur. Hann var rosalega þunglyndur og einangraður en þarna er hann aftur á meðal fólks og hefur loksins eitthvað fyrir stafni,“ segir áðurnefnd móðir 19 ára drengs. Sonur hennar var í raun nýbyrjaður í úrræðinu og framundan voru greiningar. „Hann átti að fá fullt af aðstoð þarna og framundan var einhverfugreining. Þarna átti hann að fá allskonar aðstoð á einum stað en núna vitum við ekki hvert við eigum að leita. Ég var búin að skrifa undir alla pappíra en svo er þetta bara lagt niður.“
Hún segir eitt það versta við þessi tíðindi vera að núna lítur út fyrir að þeim ungmennum sem eru að hittast í Janusi endurhæfingu verði núna stíað sundur. „Hvað ætlar þessi ríkisstjórna ð gera. Ekki ætlar hún að opna annað svona úrræði fyrir þau því það kostar jafnmikið.“
Heilbrigðisráðuneytið hefur birt fréttatilkynningu um málið þar sem segir að ungmennunum hjá Janusi verði tryggð þjónusta. VIRK, heilbrigðisráðuneytið og stofnanir ráðuneytisins vinna að því að tryggja það á næstu mánuðum. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti það verður gert. Ráðuneytið gagnrýnir jafnframt afstöðu Janusar og segir:
„Á samningstímanum hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Janusar að endurhæfingin sem þar fer fram sé að þeirra mati læknisfræðileg endurhæfing og að VIRK, sem hefur fjármagnað 75% samningsins, eigi því ekki að eiga aðkomu að honum. Þetta er einhliða mat af hálfu Janusar og stangast á við faglegt mat sérfræðinga um að endurhæfingin þurfi að vera bæði læknisfræðileg og starfstengd. Engu að síður ákvað ráðuneytið að hefja viðræður við forsvarsmenn Janusar á þessum grundvelli, um að færa þá heilbrigðistengdu endurhæfingu sem Janus hefur sinnt inn í rekstur starfandi heilbrigðisstofnunar þar sem samlegðaráhrif í þjónustunni gætu verið fyrir hendi. Var þá jafnframt gert ráð fyrir að starfsfólk Janusar ætti þess kost að flytja á nýja starfsstöð með verkefninu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landspítali og Reykjalundur sýndu þessu öll áhuga þegar eftir því var leitað, en forsvarsmenn Janusar töldu þegar á reyndi að þessi yfirfærsla gæti ekki átt sér stað nema að uppfylltum ýmsum skilyrðum sem ekki náðist saman um í viðræðum.“