„Það var ógeðslega mikið að gerast í lífi mínu, miklar breytingar. Ég varð mjög áberandi í fjölmiðlum og blaðamennsku á þessum tíma og einhvern veginn vissu allir allt í einu hver ég var. Ég var að skrifa fréttir sem fólk tók eftir og það voru ráðherrar að öskra á mig sem ég vissi varla hvað hétu af því ég var nýkomin heim. Þetta gerðist allt mjög hratt og ég man ég var svo hissa og fannst þetta svo merkilegt eftir að hafa verið úti í London, algjör nobody, að koma svo heim og vera kannski að gera hlutina pínu öðruvísi og allt í einu vissu allir hver ég var,“
segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands um tímann eftir að hún flutti heim aftur og hóf störf á Fréttablaðinu eftir að hafa verið búsett um árabil í Englandi.
Sigríður Dögg er nýjasti viðmælandi Sigurlaugar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.
Fljótlega eftir að Sigríður Dögg flutti heim kynntist hún manni, sem varð síðar eiginmaður hennar og barnsfaðir, Valdimari Birgissyni.
„ Alltaf þegar við hittumst náði ég einhvern veginn að gíra mig niður. Hann varð algjör jarðtenging fyrir mig. Hann er svo mikill klettur og með svo mikla jarðtengingu. Mér leið alltaf svo vel nálægt honum, þó þetta væri ótrúlega fáránleg hugmynd að fara að vera skotin í manni sem var tíu árum eldri en ég og átti þrjú börn með þremur konum, var óvirkur alkóhólisti og nýskilinn. Þetta var sko alls ekki það sem ég sá fyrir mér en hann er enn þá þessi jarðtenging og við erum ógeðslega góð saman,“ segir Sigríður Dögg.
„Við erum búin að gera alls konar skemmtilega hluti. Aðallega eignast börn og gera upp hús.“
Árið 2021 var Sigríður Dögg kjörin formaður Blaðamannafélags Íslands. Segir hún að eitt af því sem þurfi að krossa við er að minna nýja ríkisstjórn á frjálsa fjölmiðlun.
„Það er mikilvægt fyrir lýðræði í landinu að þar séu öflugir frjálsir fjölmiðlar. Það skiptir miklu, miklu meira máli hvað stjórnmálamaður í valdastöðu segir um fjölmiðla en það sem Jón og Gunna segja við kaffivélina á vinnustaðnum sínum.
Það voru vonbrigði að sjá hvernig þessi ríkisstjórn fór af stað varðandi viðhorf og framkomu gagnvart blaðamönnum. Hún segir blaðamenn auðvitað þurfa, líkt og aðra, að heyra þegar þeir gera eitthvað rangt en það sé brýnt að gagnrýnin sé málefnaleg. Ég vona innilega að þetta sé bara misskilningur og byrjendamistök þessarar ríkisstjórnar. Ég trúi því ekki að þetta sé stefna sem hún ætlar að taka upp.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.